<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, janúar 04, 2006

Working 9 to 5
Jæja þá er maður byrjaður í nýrri vinnu og svona, voðalega spennandi. Labba í vinnuna á 10 min í stað þess að eyða 1 ½ tíma í lestum eins og úti, sem er aldeilis munur. Við Binni vorum m.a.s. samfó í vinnuna í morgun, voða kósí. Hann er byrjaður í Landsbankanum og getur m.a.s. séð yfir til mín ef hann labbar yfir glerbrúnna í Hafnarstrætinu á milli skrifstofunnar og mötuneytisins í hádeginu. Ég verð nú að segja að ég öfunda hann heilmikið af þessu mötuneyti. Hjá mér verða bara áfram heimatilbúnar eggjasamlokur og skyr í hádeginu. En ég kvarta ekki, aðstaðan hér er fín og maður er smack bang í miðbænum með kaffihús, pulsuvagna og sjoppur á hverju götuhorni. Svo mér líst bara mjög vel á þetta. Er líka með þetta fína útsýni yfir Hlöllabáta og holdvot túristagreyin. Þessa dagana er ég að undirbúa Manchester ferð í næstu viku sem er mjög spennandi. Partí og sýningar hægri vinstri. Og það lítur út fyrir að maður verði áfram á góðu flakki á þessu ári, á hinar ýmsu ráðstefnur. Eitt slæmt hinsvegar við að byrja að vinna aftur er að maður er kominn aftur í kaffidrykkjuna. Áhugavert, en ég tók eftir því að í ferðalaginu okkar sem var rúmur mánuður, hvítnuðu tennurnar á mér alveg slatta, en ég drakk nánast ekkert kaffi, te eða rauðvín í ferðinni. En nú fara þær eflaust að gulna aftur. Ásamt því að maður fölnar líka aftur fljótt í skammdeginu. Ekki lítur þetta vel út. Mér finnst ég líka vera hálf heiladauð þessa dagana. Hausinn búinn að tæmast í fríinu. Búin að gleyma öllu því sem ég lærði úti. Gúlp. Já nú er það svart.

En talandi um svart - skammdegið. Það er óneitanlega erfitt að venjast því, sérstaklega þegar maður er að koma úr stöðugu sólskini. Mér líður eins og moldvörpu. Svo þungt yfir öllu. Þetta er ekki besti tími ársins til að flytja til landsins aftur. Við Binni vorum að tjatta um þetta í gær, hvernig okkur liði nú með að vera flutt heim, þar sem hlutirnir eru núna aðeins búnir að “sökkva inn”. Okkur líður báðum frekar skringilega. Eins og við séum í hálfgerðu “twilight zone” – búið að zippa síðustu 3 ár í einhvern pínkufæl. Kannski er það vegna þess að við erum flutt aftur á Óðinsgötuna og fátt hefur breyst þar og í hverfinu á þessum 3 árum. Eða vegna þess að nú verður lífið einhvern veginn alvarlegra – ekkert verið að leika sér í útlöndum lengur og hugsa bara í mesta lagi 1 ár í einu, og eiga stöðugar breytingar í vændum (flytja, skóli, ný vinna osfrv.). Maður var orðinn svo vanur því og mér líður yfirleitt vel að hafa nokkuð hraðar breytingar í lífinu. Svo manni líður hálf skringilega með stöðuna núna. Komin aftur í heim skipulagningar, reikninga, húsnæðisúrbótna osfrv. Eins og ég var næstum orðin leið á flakki um daginn – nú er ég strax orðin frústreruð með að vera á einum stað! Maður er skrýtinn. Auk þess sem við erum hálf eirðarlaus, en það er kannski mest vegna þess að maður er svo mikið inni núna, búinn að vera sambandslaus, bíllaus og ekki með sjónvarp – jú við náðum nú myndinni um daginn og gátum hlustað á fréttirnar við í útvarpinu, en svo ekki meira! En þetta ástand jafnar sig nú.

Og það er næs að elda mat sjálfur aftur heima. Elduðum í fyrsta skipti núna í vikunni síðan 13. nóvember! Og það er næs að rekast á gamla kunningja á rölti í miðbænum – það gerði maður sko ekki úti. Jájá þetta verður alltsaman svooooo nææææs - allavega þegar fer að birta almennilega!!

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?