<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, júní 29, 2004

Allt tekur enda um síðir…
Jæja, síðasti dagurinn á Íslandi í dag. Þegar maður er í heimsókn vilja oft síðustu dagarnir manns verða ansi stressaðir því maður vill hitta og kveðja alla og ná að gera hitt og þetta áður en maður fer. Svo er maður oftast hálfgerður zombie í þokkabót og gerir allt í móðu, þunnur og þreyttur eftir djamm og læti. Nú er þetta samt frekar afslappað hjá mér. Get bara setið hress hér í föðurhúsum og bloggað, þvílíkur lúxus. Amma heimsótt á eftir og stelpuhittingur í kvöld. Ef eitthvað er þá er mér kannski pínu bumbult af öllum kræsingunum sem maður er búinn að troða í sig undanfarna daga: barnaafmæli í gær með tilheyrandi grillmat, sósum og mikkamús/rice crispies kökum, snakk og kók hjá vinkonum, ömmukaffi, og allskonar “möst” t.d. fá sér pulsu á Bæjarins bestu og svo snúð og prins póló og kók….maður hefði eiginlega átt að halda sig við hollustu matreiðsluna hennar mömmu, fisk og svona! En jæja, ég fer bara á einhverskonar heimatilbúinn detox kúr þegar ég kem heim, er það ekki bara, ehemm…

Þetta er annars búin að vera alveg frábær dvöl. Alveg eins og ég vildi hafa hana. Könnunin afgreiddist skv. plani og það frekar fljótt svo ég hafði nógan tíma til að slappa af úti á landi, djamma, fara í sund og heimsækja vini og ættingja. Enda hitti ég barasta alla! Nema nokkrar vinkonur sem eru staddar í útlöndum. Og gott betur, því ég hitti slatta af nýju fólki líka, ferðamennirnir allir skemmtilegu úti á landi og Frakkarnir í partýinu hjá Evu og Sam –alltaf gaman að hitta nýtt fólk. Hitti svo frænkur og frændur sem ég hef ekki séð í laaangan tíma, það var líka Álftamýrarskólahittingur og svo komu systir mín og Ben líka í fyrradag. Hef líka getað verið aðeins á msn og tjattað við ýmsa góða kunningja þar. Sá eini sem ég virkilega finn fyrir að ég hafi ekki hitt undanfarna 2 ½ viku er Binni. Alltof langur tími án hans. En bætist úr því á morgun sem betur fer! Já ég er ekki frá því að ég hlakki bara massamikið til að fara út aftur. Fer út mjög sátt líka. Framundan er að klára ritgerðablessunina, liggja í sólbaði og fá gott fólk í heimsókn. Ahhh jyttebra.

Í gær fór ég í útí bílskúr hjá mömmu og pabba þar sem ég dömpaði dótinu mínu þegar ég flutti frá Óðinsgötunni fyrir 2 árum. Gramsaði aðeins í dótinu, var eiginlega að leita að Abba diskinum mínum sem ég hef saknað svolítið, en rakst á allskyns annað í leiðinni. Vá, minningarnar streymdu fram….og mikið hafa hlutirnir breyst á undanförnum 2 árum. Vissi ekki að svona mikið af hreinu drasli gæti vakið upp minningar líka. Það voru ekki bara myndirnar úr partýi hjá Erlu og af mér og Binna þegar við vorum nýbyrjuð saman, hlutir sem ég var með á Óðinsgötunni og gömul bréf frá vinkonum heldur jafnvel hlutir eins og gömul stúdentaskírteini og símkort frá dvöl minni í Osló og New York sem var ótrúlega fyndið að finna. Líka gamlir búningar úr þemapartýjum, snyrtivörur og skór sem eru komnir úr tísku ofl. Fann líka gamalt tölfræðiverkefni sem gæti komið að góðum notum á næstu vikum! Og uppskriftir sem ég ætla að prófa aftur þegar ég er komin út. Það fyndnasta sem ég fann voru samt gömlu gómarnir mínir! Úff var ég að geyma þá…smekklegt haha. Annars er svolítið leiðinlegt hvað maður á mikið af skemmtilegu dóti sem liggur bara þarna og enginn notar. En vonandi getur maður tekið almennilega uppúr þessum kössum einhverntímann eftir ekki svo langan tíma. Bis spater, leibe Island.

|

laugardagur, júní 26, 2004

!Vive la France!
Jæja, þá fóru Frakkar í gær sömu leið og Englendingarnir. Heim í heiðardalinn, búið bless. Mínir menn Beckham og Henry gjörsamlega búnir að klúðra málunum. Alveg ótrúlegt! En Frakkarnir sem ég hitti í gær voru þó ekki tapsárir, langt frá því. Mætti eiginlega halda að þeir hefðu unnið hann, því eftir að hafa horft á leikinn á Sólon með Evu Dís og Sam og nokkrum góðum vinum þeirra –og fengið “allé allé olé olé” og “qui pas ne le fnueff!!” eða eitthvað svoleiðis öskrað nánast uppí eyrað á mér á mínútu fresti – var eins og góðum Frökkum sæmir slegin upp heljarinnar veisla á Hátegisveginum (sælla minninga).

Mér finnst ég oft skemmta mér best þegar ekkert er planað. Það sannaðist enn og aftur í gær. Ég ætlaði nú bara að láta það nægja að horfa á leik og drekka 2 bjóra en nei nei öllum skúbbað uppá Háteigsveg og dregnar fram dýringiskræsingar og ýmsar víntegundir. Rótsterkar caiperinjur og salsatónlist fékk fólk fljótt á dansgólfið og þá var ekki aftur snúið. 20 brjálaðir frakkar og nokkrir af öðrum minnihlutaþjóðernum að dilla sér, hrista sig og skaka við Jamiroquai, Serge Gainsbourg, Blondie og Spilverk Þjóðanna. Eftir ekki langan tíma var svo búið að sleppa Sam lausum í geymsluna (þar sem Eva Dís geymir hina ýmsu búninga frá hinum og þessum halloween partýum) og út kom blanda af talibana, kleópötru og hawaiískri drós. Ein fyndnasta sýn sem ég hef séð hreinlega! Fljótt fylgdu á eftir fleiri Frakkar í hinum ýmsustu múnderingum, togabúningur, starsky & hutch lúkk o.s.frv. og hoppuðu og skoppuðu og múnuðu úti í garði. Ooh lala.

Semsagt alveg hreint frábært kvöld, ég hef ekki skemmt mér svona vel leeeeengi! Ekki laust við að ég hafi jafnvel lært nokkur frönsk orð í gær líka. Fannst ég allavegana á tímabili vera farin að geta bjargað mér nokkuð vel. En ætli það hafi samt ekki bara verið ímyndað afkvæmi caiperinjunnar. Finn sem betur fer ekki svo mikið fyrir því í dag að hafa lent í þessu óvænta partýi enda stendur víst til annað djamm í kvöld…já maður sleppur sko ekki við ekta íslenskt djamm þegar maður er hér heima, enda kærkomin tilbreyting frá endalausum pöbbaheimsóknum í UK. Skál fyrir því. Nú er kominn tími á sloppy burgerinn minn. Well earned!

|

fimmtudagur, júní 24, 2004

Kringluveiki
Var að koma úr Kinglunni. Gerðist svosem ekkert merkilegt þar og það keyptist heldur ekkert merkilegt. Ef ég fer í búðir þessa dagana enda ég einhvernveginn yfirleitt á að kaupa eitthvað furðulegt eins og t.d. áðan keypti ég garðhanska. Vantar svo almennilega hanska til að geta reytt allan arfann í garðinum okkar úti. Þeir eru reyndar forljótir (af hverju er með þetta eins og straubretti það dettur engum í hug að hafa eitthvað pent munstur á þessu, alltaf eitthvað skærgult og grænt eighties rendur eða bleik og appelsínugul forljót blóm) en mjög þægilegir. Þá ætti maður að ná upp góðum hraða í arfatínslu áhugamálinu.

Svo fór ég í ríkið til að kaupa flösku fyrir helgina. Átti í mestu vandræðum með að standast freistinguna að kaupa vínin sem Létt 96,7, Femin.is og Fólk með Sirrý mældi með, en treysti í lokin á eigin dómgreind og valdi eitthvað rioja vín –sem enginn mælir með. Spennandi að vita hvort það sé drykkjarhæft…jú ætli það ekki, varla svo slæmt.

Svo fékk ég mér ís í brauðformi. Ég minntist á hamborgara í gær, annað sem mér finnst best á Íslandi er ís úr vél mmmm. Mér tókst ekki að fá mér borgara í gær því sjoppan hér uppfrá er alltíeinu tekin uppá því að loka á kvöldin (!) en ég ákvað að ég mætti þá í staðinn fá mér ís í dag : )

Í kvöld er svo matarboð í tilefni afmælis afa míns Geirs, en hann er 88 ára í dag. Til hamingju afi!

|

miðvikudagur, júní 23, 2004

Pikkulína
Ég er búin að vera mjög pikkí í dag…pikkpikkpikk í spss. Of snemmt að segja til um hvernig gögnin líta út enda þarf ég líka að fá hjálp sérfræðingsins míns í þessum málum til að vinna þau til hlítar hmmm. Hvað um það, tölfræðital finnst mér ekki svo skemmtilegt og heldur ekki flestum, svo yfir í annað.

Ísland er svolítið skrýtið land. Er búin að pæla í tvennu í dag:

1. Hvernig í ósköpunum gat stærð heils árgangs “gleymst” við ákvörðun um fjárþörf framhaldsskóla til næsta árs? Úps, allt í einu ekki til peningur og búið að vísa 600 16 ára gemlingum frá framhaldsskólanámi. Upp verður fótur og fit og loks sæst á auka fjárframlög. Þvílík eyðsla á óþarfri orku! Hvernig væri að kíkja einfaldlega á tölur hagstofunnar svona ári áður (talan breytist varla mikið ár frá ári…) og einfaldlega reikna x fjöldi væntanlegra nemenda sinnum x kr á haus. Nei það er greinilegt að einhver hefur ekki lært margföldunartöfluna sína í den! Já nú held ég sko að þörf sé á fleira fólki eins og mig, “planners” eða áætlanagúbba (eða kannski bara fólk sem kann margföldun og hefur það sem kallast common sense) til þess að taka til í hendinni hérna. Svona klaufaskap er auðveldlega hægt að koma í veg fyrir. Og þó ég sé fylgjandi skólagjöldum í háskóla þá þykir mér nú frekar hæpið að fara að banna 16 ára greyjum að slæpast í menntaskóla. Jafnvel þó það hafi verið “mistök” en eins og ég er búin að segja er ég sérstaklega á móti þeim. Hrmmmph.

2. Mamma kom heim í dag með vínflösku úr ríkinu sem á var flipi. “Bylgjan mælir með þessu víni” eða eitthvað álíka stóð á flipanum. Vá maður hef aldrei séð svona fyrr! Vantar nú átvr aukatekjur – þeir fá kannski ekki nóg skatt af öllu áfenginu sem landsmenn skvetta í sig? En þó kannski ekki galin hugmynd. Mér fannst aðallega skondinn þessi tiltekni “styrktaraðili”, Bylgjan? Hefur Bylgjan eitthvað sérvit á vínum? “Ahh já fyrst Bylgjugaurarnir fíli að detta í það af þessu þá hlýtur þetta nú að vera gæðastöff”. Þvílíkur gæðastimpill. Haha. Líklega hef ég samt misst af einhverju – kannski er einhver vínspekingur með þátt á Bylgjunni, en af hverju þá ekki að hafa nafn hans á flipanum, það þætti mér amk. meika meiri sens…

Iceland: full of surprises (nýtt slagorð fyrir ferðamarkaðssetninguna)

En eitt er mér hugleikið nú sem klikkar ekki á Íslandi. Það eru “sloppy burgers” eins og ég vil kalla það. Hvergi í heiminum hef ég smakkað eins góða hammara og á skerinu góða. Yummy. Íslenskar sjoppur kunna sko að fræja góða kjötlufsu og skella á hana alvöru hammarasósu, og kunna þá snilld að blanda saman mæjonesi og tómatsósu með frönskum. Ætla einmitt að hoppa útí sjoppu og næla mér í svoleiðis núna. Slurp og kjamms og verði öllum að góðu.

|

þriðjudagur, júní 22, 2004

Vísindaferðin
Aldrei hefði mig grunað að rannsókn vegna skólaverkefnis á mastersstigi gæti orðið svona skemmtileg! Ég kom heim í gærkvöld útitekin eftir fjóra daga á rúnti um suðurlandið í sól og blíðu með Ástu P. Og með 250 stk útfylltar kannanir í farteskinu. Ekki slæmur árangur það og þungu fargi af mér létt. Þurfti þó minnst að hugsa um fargið því þetta var svo frábær helgi.

Við lögðum af stað á fimmtudagseftirmiðdegi skv. áætlun, þunnar eftir gott 16. júní kvöld með fyrrum Álftamýrarskælingum og eftir að ég var búin að gera síðustu leiðréttingar á spurningalistunum og ljósrita og hefta nokkur hundruð stykki af þessu. Þrátt fyrir þónokkra þreytu og nær-liðagigt í hendinni eftir alla heftigleðina gekk ferðin ágætlega og það var brunað beint uppí Skaftafell þar sem við tjölduðum og hreinlega rotuðumst inní tjaldinu. Næsta morgun gengum við svo, kannski eilítið hikandi, uppað þjónustumiðstöð og byrjuðum að taka til í hendinni. Eftir smá æfingu vorum við farnar að geta ráðist á fórnarlömb okkar af mikilli leikni og jafnvel farnar að skapa mikla kátínu meðal gesta Skaftafells. 99% af fólki tók bara ekkert smá vel í það að svara þessari blessuðu könnun. Sumir beinlínis löbbuðu uppað okkur að fyrra bragði – einn hélt að við værum kannski svona “welcoming committee” fyrir rútuna hans en við gripum hann þá bara glóðvolgan. Það vantaði heldur ekki hvað sumt fólk hafði áhuga á efninu mínu – mér var nú eiginlega stundum bara nóg um, svona þegar fólk bara blaðraði áfram á meðan ég reyndi að svara og sá um leið kannski 10 girnileg fórnarlömb labba framhjá mér! En þá kom hjálp Ástu að góðum notum. Fæddur kannanameistari þar á ferð. Hún sjarmeraði alla uppúr skónum og einn Þjóðverjinn heimtaði m.a.s. að fá að taka mynd af henni fyrir son sinn, haldandi á nammikassa og könnunum! Það varð sem betur fer þó ekki svo að úrtakið yrði bjagað af slíkum sjarmör-heitum en við reyndum að skipta jafnt á milli okkar krúttlegum breskum köllum, ríkum amerískum kellingum, ungum frönskum hjólreiðagörpum, íslenskum fjallageitum, þýskum landfræðingum og havaískum furðufuglum. Tókum svo góðar pásur innámilli og skruppum á Jökulsárlón og í fiskikerspottana í Flosalaug.

Um kvöldið grilluðum við svo og hittum af tilviljun kunningjafólk Ástu sem joinaði okkur fyrir framan tjaldið okkar. Þessi litla samkoma reyndist svo vera segull á félagsskapsþyrsta Kanada- og Kaliforníu menn/konur og þurfti að hafa dáldið við að hemja mannskapinn í að tala ekki of hátt þegar klukkan var orðin margt. Hellirigning og hvarf okkar Ástu inní tjald dugði varla til. Næsta morgun tók svo svipað prógram við, gestir staðarins spurðir útí þaula og kynningarrullan orðin vel æfð: “Excuse me sir, where are you from? Ah, land X. I am doing a survey for…blablabla” Ég var m.a.s. farin að verða ansi lúnkin á þýskunni, já Þjóðverjarnir sluppu ekkert þó þeir töluðu ekki ensku: “Hallo, ich bin Student und mache ein Universitatsprojekt…fragen…antworten….sie bitte…bluhbluh” þetta varð nú kannski einhver blanda af þýsku og norsku hjá mér en ég otaði svo bara þýsku útgáfunni að greyið túristunum og þeir, blessaðir, tóku bara vel í þetta hjá mér og urðu himinlifandi að fá ókeypis súkkulaði á eftir.

Við kláruðum Skaftafellskannanirnar á no time og gátum þá farið í göngutúr uppað Svartafossi þar sem ég hitti fyrrum myndlistarkennarann minn. Ótrúlegasta fólk sem maður hittir í svona ferðum, við vorum líka oft að hitta sama fólkið á mismunandi stöðum. Á leiðinni niður vildum við Ásta láta taka mynd af okkur saman, við spottuðum hóp af Þjóðverjum og Ásta gómaði einn til að taka mynd. Við stilltum okkur upp og allt í einu brast út þessi þvílíki hlátur. 20 þjóðverjar að horfa á okkur og að kafna úr hlátri og við að reyna að vera kyrrar og penar fyrir myndina. Ekki hef ég hugmynd um hvað var svona fyndið, ég hélt kannski að við værum báðar með opna klauf eða eitthvað en svo virtist ekki vera. Við munum víst aldrei vita það. En tveir gamlir kallar úr þessum hóp eiga núna sömu mynd af okkur og geta hlegið að okkur heima hjá sér í Blumenhofburgenstein. Það er nú skemmtileg tilhugsun.

Eftir þetta var brunað niður að Geysi þar sem við fengum frábærar móttökur frá foreldrum Binna í Marteinsseli. Heljarinnar grillveisla, rauð belja og ég veit ekki hvað. Vorum þar í góðu yfirlæti um kvöldið og morguninn en þá var komið að Gullfosskönnun. Hún gekk nú ekkert síður en sú fyrri. Fleiri hressir Kanar, málglaðir Íslendingar, þreyttir slóvenískir hjólreiðagarpar og skemmtilegir Svíar. Um eftirmiðdaginn kom svo Ólöf vinkona uppí bústað og það var setið útá palli í sólinni, kjaftað og drukkið hvítvín. Grillað og kjaftað aðeins meira. Svo var kjaftað uppí koju eins og í gamla daga í Vindáshlíð. Þangað til kjafteríið varð að svefndrukknu röfli og við rotuðumst allar sem ein. Daginn eftir fórum við riddaranir þrír og kláruðum verkefnið í heldur miklu roki. Þakka mínum sæla fyrir að kannanirnar hafi ekki fokið útí veður og vind eða ofan í Gullfoss. Skelltum okkur svo í Reykholtslaug og eftir það skildust leiðir. Við Ásta héldum áfram og komum við á Selfossi og fengum okkur pizzu. Gerðist svosem lítið markvert þar nema það labbaði framhjá glugganum Lundúnabúi sem hafði svarað könnuninni minni 5 tímum áður. Svo var brunað í bæinn.

Já þetta var hin besta ferð. Góð blanda af “business and pleasure”. Ég kann aðstoðarmanni mínum henni Ástu bestu þakkir fyrir alla hjálpina og kompaníið, Ólöfu líka og Jóni Erni og Siggu fyrir lánið á bústaðnum. Og blessuðu ferðamönnunum krúttlegu sem ferðast um landið okkar. Heyrðu nú má ég ekki verða væmin og fara að láta eins og ég sé að taka á móti óskarsverðlaunum. Er ekki einu sinni búin að kíkja á dýrmætu kannanirnar mínar ennþá. Ákvað frekar að njóta góða veðursins og labba niðrí bæ og fara í sólbað útí garði í dag. Á morgun á að þykkna upp og þá fer ég að pikka inn, júhú!

|

þriðjudagur, júní 15, 2004

Þriðjudagur á Þingvöllum
Jæja, þá er Fröken Fix loks búin að prófa könnunina frægu. Skundaði á Þingvöll í dag til að sjá hvort spurningarnar væru skiljanlegar og hvernig fólk myndi bregðast við. Bjóst svosem ekkert við neinum harkalegum mótmælum en þó kom mér á óvart hvað allir þessir útlendingar voru rosalega almennilegir og jákvæðir (sérstaklega frakkar við ensku útgáfunni). Það voru nú frekar fáir ferðamenn á svæðinu í dag svo það tók alveg smá tíma að fá 30 svör, en það tókst! Nú er ég orðin forvitin að sjá hvað fólk svaraði…mér sýnist í fljótu bragði svörin vera ca. það sem ég bjóst við, einn neitaði að svara tekjuspurningunni, sumir sögðust vilja borga 1000 kall inná Þingvelli en aðrir ekkert. Þjóðverjar virðast nískastir! En að sjálfsgöðu er þetta ekki nóg til að sanna þá mýtu, haha. Ekki alveg marktækar niðurstöður. Það var annars ótrúlegt hvað fólk var til í að spjalla og hafði áhuga á þessu efni. Nokkrir sögðust vera mjög hissa á því að geta gengið um allt án þess að borga neitt. Sumir voru með flóknari skoðanir á hlutunum og átti ég í eitt skiptið erfitt með að losa mig við einn Íra, hann var næstum búinn að missa af rútunni sinni hann var svo æstur að tala! Svo virtust tveir ungir frakkar hafa meiri áhuga á mér heldur en könnuninni og voru alveg óðir í að fá mig með sér í prívat-túr um svæðið…ég sagði bara pent “pardon” en ég þyrfti að halda áfram að vinna í þágu vísindanna. Já það er spurning í hverskonar ævintýrum við Ásta lendum í um helgina með 200 stykki ekki 30, úffa!

En semsagt, nú sit ég hér með hroll eftir daginn, og bunka af könnunum sem ég er spennt að skoða og prófa í tölvunni. Einhvernveginn vildi ég að ég væri búin með allt dæmið, en svo er víst ekki…en hversu vel gekk í dag er samt mikil hvatning fyrir helgina –sem og veðurspáin! Jibbí það lítur ekki út fyrir að það verði rok og rigning ALLAN tímann sem ég er hérna, sem betur fer. Binni er úti í 28 stiga hita og ég er næstum komin með leið á að heyra um hvað það sé æðislegt að valsa um ber að ofan útí garði! Nei nei gaman að heyra að Binni hefur nóg fyrir stafni og hafi það ekki svo slæmt sem grasekkill :-O

Jæja ætli maður kíki ekki aðeins á Holland-Þýskaland. Mér heyrist samt að ekkert sé búið að gerast. Englendingar voru nú heldur “óheppnir” um daginn, arghhh vona samt að ég geti farið aftur stolt í bolinn minn bráðum (stendur sko “7” aftan á honum –númerið hans Beckhams –ýkt gella). Svo er það heitur pottur og kannski eitt rauðvínsglas með Ólöfu vinkonu á eftir…ahh held ég eigi það sko skilið eftir bissí dag.

|

sunnudagur, júní 13, 2004

Áfram England
Stór leikur í dag, England – Frakkland. Ekki verra að báðir uppáhaldsfótboltamennirnir mínir eru að spila: Beckham og Thierry Henry! (ja eiginlega þeir einu sem ég þekki hehemm). Já Mæja fótboltabulla er nú komin í nýja Englandsbolinn sinn úr New Look og ætlar að styðja sína menn í dag. Hún ætlar nú samt að hegða sér vel, ekki eins og lager-laddarnir úti í Portúgal.

En áfram Ísland líka, þó við séum ekki með. Já nú er maður lentur á klakanum. Eftir að hafa villst aðeins í undergrándinu með tonn af farangri, hafa fengið kók hellt yfir mig í flugvélinni og svo verið ekki viss hvort ég væri í IceExpress eða Icelandair flugvél (brand image confusion á hæsta stigi, flugfreyjurnar voru í Icelandair búningum en samt með grænar slaufur ofl. ruglingslegt –hvað var í gangi eiginlega?), þá tók á móti mér brjálað rok og rigning í Keflavík. Fyrst var ég alveg “úff” (var að koma úr 25 stiga hita og sól í UK) en svo varð þetta bara “hressandi”. Íslendingurinn í manni að finna sig aftur.

Já, ekki held ég að könnunin verði prufukeyrð í dag í súldinni. Er þá bara í rólegheitum hér heima í Safamýrinni. S. 5531238 ef einhver vill ná í mig. Svo er hægt að senda mér sms á +447909830304. Gærkvöldinu eyddi ég í að koma mér betur inní landsmálin m.þ.a. lesa alla mogga og fréttablöð sem fyrirfinnast á heimilinu og sama átti við í morgun, sunnudagsmoggi yfir kaffibolla. Skippaði nú mest af þessari boring fjölmiðlafrumvarpsumræðu en skemmti mér konunglega yfir auglýsingum og ýmsu “lífstíls”krappi. Hmm það fór þá lítið fyrir landsmálunum á endanum. En stemmningin er rétt, rólegt og afslappað, gufan á fullu með loðnufréttirnar og rokið beljandi úti.

Það eina sem ég finn fyrir að ég sakni strax er (jú auðvitað líka Binni), Big Brother! Ég dýrka þáttinn í ár, ekkert smá spennandi og ég er búin að fylgjast með þessum innilokuðu brjálæðingum nánast á hverju kvöldi. Nú er svo tómlegt án þeirra...búhú..nei ok kannski ekki alveg, en ég verð víst að láta mér nægja að fylgjast með fréttum úr húsinu á netinu.

Á meðan ég man, ég skora á alla að fá sér Atlaskort. 1000 kall fyrir 4 klst. í síma til útlanda, ekki slæmt! Allir að kaupa sér svona og hringja í okkur Binna úti!

|

föstudagur, júní 11, 2004

Ég ekki tala íslenska
Hvað er í gangi með íslenskuna mína? Ég sver það ég tala stundum svo vitlaust, ekki kannski fáránlega vitlaust en "þýði" orðasambönd beint úr ensku yfir á íslensku án þess að taka eftir því. Rugla líka forsetningum og tengingum. Ég stend mig oftar en ekki að því að setja inn blogg og svo nokkru síðar fatta að ég hef skrifað e-ð vitlaust! (ég var líka í miklum vandræðum með að þýða blessuðu könnunina mína af ensku yfir á íslensku!) Lesendur hafa örugglega tekið eftir þessu. Fyrir utan hvað ég sletti mikið. Afsaka það en svona er maður bara áhrifagjarn. Og íslenskan oft flókin! Það er samt ágætt að ég sé ekki líka með einhvern apalegan hreim -amk. heyrist hann þá ekki á blogginu, fjúkkett. Það var verra þegar ég bjó úti í Norge en þá hló mamma oft að mér þegar hún hringdi í mig og ég byrjaði að "syngja"! Og norskan varð ferlega mónótónísk þegar ég var búin að vera á Íslandi og mætti út aftur. Já það reynir aldeilis á tungumálastöðvarnar í heilanum núna.

|
Homeward bound
Síðasti dagurinn í Guildford fyrir brottför. Og ég hálfslöpp heima! Við Binni fengum samtímis skemmtilega flensu í fyrradag en sem betur fer virðist hún vera að hjaðna. Ég verð samt að viðurkenna að ég hlakka ekkert sérstaklega til að bögglast með ferðatöskuna, handfarangur og fartölvuna mína í lest, gegnum neðanjarðarlestarkerfið, á flugvelli, í flugvél....týpískt að manni myndi slá niður eftir svoleiðis brölt, en ég vona það besta (og ætla ekki að láta mömmu hafa óþarfa áhyggjur!). En þetta flug verður ábyggilega ekkert “TF Stuð” það er víst. Oh well.

Það verður ágætt að koma heim (smá rugl á þessu “heima” dæmi hjá mér alltaf, tala bæði um hér og Ísland sem “heima”. Nú meina ég Ísland). Hlakka til að hitta vini og fjölskyldu og fá mér snúð og fara í sund. Ég held að laugarnar séu hluturinn sem ég sakna einna mest við Ísland. Ahh það jafnast ekkert á við að slappa af í góðum heitum potti. Hér eru bara hálfkaldar táfýlulaugar, nei takk held ég sleppi því.

Þessi 2 ½ vika verður annars lengsti tíminn sem við Binni höfum verið í sundur síðan við byrjuðum saman (2 ½ ár, hey sjáiði mynstrið? wohow). Það verður skrýtið, því við erum saman á hverjum einasta degi hérna, eigum svo fáa vini hérna úti og verðum því að miklu leyti að sætta okkur við kompaní hvors annars (sem okkur finnst n.b. bara stórfínt), en við hljótum bara að hafa gott af því að vera aðeins í sundur. Binni fær svo góða heimsókn eftir 2 vikur, tveir vinir hans, Arnar og Óli Jó koma í fótbolta, pizzu og bjór. Já þá er nú best að vera ekkert á svæðinu að flækjast fyrir. Danger -keep out- crazy shouting, belching and male bonding ahead. Og það verður eflaust ekki mikill tími fyrir mig að vera lónlí heima hvort eð er. Ég er t.d. búin að frétta af mini-reunioni fyrrum bekkjarfélaga í Álftamýrarskóla í næstu viku og það verður örugglega ýkt gaman. Því miður verður ca. helmingur vinkvenna minna ekki á landinu, búhú, en ég næ nú samt vonandi að hitta hinn helminginn og fá að koma við eins og eina eða tvær bumbur (ófrískubumbur sko, haha úff ekki hinseginn hmm það hefði verið hálf perralegt!). Svo heimsækir maður ömmur og afa og fær sér kaffi með mömmu og jafnvel að pabbi drífi mann út á kajak.

Og svo er það rannsóknin. Jepp, not all play...work work work. Það verður samt bara gaman held ég, sérstaklega því ég hef svo góða aðstoðarkonu, Ástu P. vinkonu. Held jafnvel að hún sé spenntari fyrir þessu en ég! Við ætlum að bruna um suðurlandið og tökum þetta með trompi í bleika uniforminu okkar. Svo mun ég sitja í gamla herberginu mínu og pikka dótið inní SPSS. Hmm ÞÁ á ég pottþétt eftir að sakna tölfræðingsins míns mest!

Sjáumst á klakanum....

|

þriðjudagur, júní 08, 2004

Dr. Mæja?
Góðar fréttir og spennufall hjá minni! Var á fundi með leiðbeinenda og allt er í lagi, bara laga aðeins spurningakönnunina og þá er ég reddí tú gó. Svo koma mín til Íslands á laugardaginn er staðfest. Jibbí!

En það sem meira er, er að leiðbeinandinn minn spurði hvort ég hefði áhuga á doktorsnámi! Ji dúdda mía...ég hafði ekki alveg undirbúið mig undir þessa spurningu...þó ég hef alveg hugsað hvað akademísk vinna á vel við mig og ég hvað ég væri alveg til í að gera aðra mastersgráðu! Fínt t.d. núna að vera bara heima að dúlla sér með svona ritgerð, verða margs vísari og líka tiltölulega frjáls til að fara í sólbað þegar maður vill, hehe. Jahá hmm (ég er sko ennþá í hálfgerðu sjokki hérna veit ekki alveg hvað ég á að hugsa). Semsagt 3 ár í viðbót á lúsastyrkjum og svo líf í akademíu að stunda rannsóknir, kenna og fara á ráðstefnur. Hmm hlómar einhvernveginn ekki svo illa? Gæti verið að ég fari sömu leið og pabbi eftir alltsaman, bara í öðru fagi? haha Og hvað gæti maður gert með doktorspróf í ferðamálafræðum heima? Unnið uppí háskóla (RVK/Akureyri/Hólaskóla) og verið ráðgjafi til ríkisstjórnarinnar? Sjáum til, amk. ætla ég að halda planinu og sjá hvort ég fái vinnu, ef ekki þá er þetta möguleiki...úff þetta er bara too much til að hugsa um núna!

En þetta er ekki búið. Í ofanálag, þá spurði ég í framhaldinu af þessu hvort það væri séns á að fá ritgerðina mína birta sem grein í fagtímariti. Jahá! sagði hann. Tourism Management, Tourism Economics, Journal of Travel Research...aðaltímaritin, vá maður, fær maður ekki borgað fyrir svoleiðis líka? Kúhúl! Ekkert að því að reyna að minnsta kosti.

Ég er semsagt í góðum málum. Leiðbeinandinn sagði að það sem væri komið af minni ritgerð væri mjög gott, sérstaklega miðað við aðra nemendur, og að hvað sem gerðist myndi hann gefa mér toppmeðmæli. Og það er ekkert smá hvetjandi. Ég er svo stolt og glöð yfir því að einhver skuli meta það sem ég er að gera og trúi á vinnuna mína. Og vá nú er ég svoooo reddí til að massa þessa blessuðu könnun og ritgerð, go go go!!! Bara eins gott að fá einhverjar skemmtilegar niðurstöður, ég treysti á ferðamenn íslands og íslenska veðurfréttamenn til að gefa mér þær. Úff, pressa...

Júhú, ég held að það verði barasta að grilla í kvöld og láta nokkra bjóra fylgja með! úff enda næstum 30 stiga hiti og sól, er að bráðna hérna...og heilinn á mér er gjörsamlega í overdrive svo þýðir ekkert að halda áfram með þetta þangað til á morgun. Úffa.

|

mánudagur, júní 07, 2004

Dejlig
Mánudagur í Guildford, eftir góða helgi í Woodbridge. Við Binni vorum hjá systur minni um helgina, en hún, Justin maðurinn hennar og Ben litli frændi minn (3 og ¾ árs víst segir hann) búa í “rassi” Englands, Suffolk héraði. Hlutverk okkar Binna var að vera pössupíur þar sem Ásta var á vakt og kallinn úti á palli (olíuborpalli sko). Tilvalið frí fyrir mig frá ritgerðaskrifum líka.

Ferðin hófst þó í London á fimmtudaginn, á bókasafni London School of Economics hvorki meira né minna. Stoppaði þar á leiðinni. Slatti af stöffi sem mig langaði að kíkja á fyrir ritgerðina var ekki til á mínu bókasafni svo ég fékk leyfi til að fara í LSE í einn dag og gramsa í þeirra dóti. Vá maður, þvílíkt bókasafn! Surrey bókasafnið er ekkert smá púkó í samanburði við þetta! LSE bokasafnið var bjart, hátt til lofts, gott loft inni, nýlegar tölvur, allt vel merkt, nice klósett, nóg af starfsfólki….ég var þarna í 6 tíma og hefði sko alveg getað verið lengur! Surrey bókasafnið, úff, ég endist aldrei meira en 2 tíma þar, svo þröngt og lágt til lofts. Já það var fínt að þykjast vera LSE nemi í einn dag. Ég er samt mjög stolt af því að vera Surrey nemi, Surrey eru víst einna bestir í að koma fólki í vinnu, vona að það gildi um mig í haust :-O Svo eru þeir auðvitað bestir í ferðamálafræði.

Svo var brunað til Woodbridge. Ahh svo fínt að ferðast með lestinni. Held að lestir séu uppáhalds farartækið mitt, svo nice að geta fylgst með landslaginu og svífa bara áfram. Einhver gamaldags rómantík yfir því (nema þegar maður lendir á einni af þessum eldgömlu gellum sem hristast og skrölta einhvernveginn áfram -það er nú meira ástandið stundum á lestunum hérna úff). En í Woodbridge var gott að vera. Woodbridge er lítill fyrrum markaðsbær, eins og Guildford, en bara minni og öllu meira sjarmerandi. Ein aðalgata þar sem er frekar rólegt en úir og grúir af skemmtilegum búðum, allskyns organic delicatessen dót, antik búðir, gallerí, bókabúðir, eldgamlir skakkir pöbbar. Svo virðist líka vera hárgreiðslustofa á hverju horni og snyrtistofur, föndurbúðir og kaffihús líka handa ríku konunum sem eiga heima hér um helgar og hafa ekkert betra að gera en að láta klína e-ju stöffi framan í sig og í hárið á sér og fá sér svo “afternoon tea”. Þetta er víst vinsæll “second home” bær, tilvalinn enda nálægt London en samt uppí sveit. Enginn samt að elta gamla geit.

Í bænum hélt ég mig samt bara við ódýru búðirnar (þær eru þó ennþá til) þar sem pyngjan er ekki ýkja þung um þessar mundir. Ég keypti sokka, uppþvottabursta og tannstöngla (það tvennt síðastnefnda er ekki hægt að finna í Guildford hvort sem þið trúið því eða ekki!). Ákvað svo að þykjast vera ein af fínu frúnum og skella mér í klippingu úr því hárgreiðslustofurnar hreinlega öskruðu á mig frá hverju götuhorni. Fékk klippinguna samt á £10. Já liðnir eru dagarnir þegar maður fékk sér strípur og alles á liggur við 10 sinnum þetta verð. Núna er Fröken Fix bara “au naturell”, gamli sauða (eða var það skólp?) liturinn loksins að koma fram. Langt síðan hann hefur fengið að njóta sín almennilega.

Svo var auðvitað passað: farið í bílaleik, fótbolta, spiderman leik og allt svona strákalegt sem manni getur dottið í hug. Það þýðir ekkert að vera einhver sissí með frænda mínum, ónei. Á laugardeginum fórum við í parkinn og svo til Framlingham að kíkja á fínan kastala (kastali nr. 1043 hjá mér að ég held). Grilluðum svo um kvöldið í garðinum í nýja húsinu þeirra. Í gær skelltum við okkur svo á strondina, þar sem var fínt að labba og nóg rok til að láta Bangsimon flugdrekann sem við gáfum Ben svífa uppí hæstu hæðum. Þessi strönd er við Bawdsey, svona týpískur “bucket and spade” staður þar sem fólk í byrjun síðustu aldar fór í sumarfrí til að fá í sig hollustu sjávarloftsins. 2 vikur á Royal Bawdsey Paradise Hotel þótti eflaust alveg hrikalega fínt. Ekkert verið að fljúga að óþörfum til Kanarí í þá daga. Með öflugum gróðurhúsaáhrifum fær þessi staður kannski vænt come-back einhverntímann.

Svo svifum við aftur til Guildford í gær með viðkomu í London. Skelltum okkur á nokkra pöbba og svo á ódýran indverskan á Brick Lane í east end þar sem er mikil stúdenta- og (kú)lista stemmning. Uppáhalds hverfið mitt í London held ég bara. Og núna er ég komin aftur til Guildford, og er með smá hnút í maganum. Hitti leiðbeinandann minn á morgun í fyrsta skipti og vonandi ekki aftur fyrr en í júlí. Þarf að hafa könnunina klára fyrir lok vikunnar þegar ég lendi á klakanum og ræðst með henni á nokkur saklaus fórnarlömb í nafni mastersgráðu. Á morgun er semsagt “make it or break it” dagur. Make it...make it...

|

þriðjudagur, júní 01, 2004

White Sunday weekend blog
Góð Hvítasunnuhelgi liðin. Reyndar fattaði ég eiginlega ekkert að það væri einhver Hvítasunnuhelgi. Maður er alveg hættur að fylgjast með þessum ‘heilögu’ frídögum, bæði sem námsmaður svo eru bara færri frídagar hér og þeir eru hvort eð er alltaf fluttir fram á mánudag til að gefa fólki langa helgi (mjög sniðug hugmynd). Og allar búðir opnar.

Það var svosem ekkert sérstakt gert um helgina. Ég bara eitthvað að reyna að taka annarra manna hugmyndir og kreista út mínar eigin og koma niður á blað svo það meiki nokkurn veginn séns. Binni fór til Oxford að heimsækja vin sinn Óla Jó -hann er að fara að flytja til Brussel á næstunni (the place to be virðist vera þessa dagana) svo síðasti séns fyrir þá félaga að fá sér nokkrar pæntur saman þar.

Ég sá frammá lónlí lærdómshelgi en viti menn bjargaði hún litla móngólska vinkona mín Goyo ekki málunum og var hjá mér bæði fös og lau kvöld. Greyið ég vorkenni henni pínu því hún er hálfgerður ‘mongolian nomad’ núna og á engan fastan samastað síðan hún þurfti að yfirgefa garðaherbergið sitt. Hún flakkar á milli vinafólks í London og svo þegar hún er í Guildford útaf skólanum þá bjóðum við henni gistingu. Svo er hún svo skemmtileg, þó hún sé pínu skrýtin stundum, en bara á krúttlegan hátt. Maður finnur mjög oft fyrir því að hún hefur ekki getað fylgst mikið með vestrænum kúltúr hingað til. Oftar en ekki stend ég mig að því að þurfa að útskýra fyrir henni ótrúlegustu hluti sem mér finnst svo sjálfsagt að vita. T.d. þegar ég kveikti á Friends vissi hún ekki hvað það var, ég eldaði lasagne og það var í fyrsta skipti sem hún hafði bragðað það, við töluðum um sex-túrisma og hún vissi ekki að það væri löglegt rautt hverfi í Amsterdam, og þegar ég minntist á að böndin Blondie og UB40 væru að spila á útihátíð í parkinum hér bráðum þá var hún bara blanco (reyndar varð ég ekki jafn sjokkeruð á því og um daginn þegar Bremeníska Karen vissi varla hver Dolly Parton er!). Já hlutirnir eru víst aðeins öðruvísi í Mongólíu. Hún sýndi okkur samt vídeomyndir þaðan í vetur og landslagið er ótrúlega líkt Íslandi. Eini munurinn er að þar eru úlfaldar og dökkhörundað fólk sem býr í hvítum tjöldum, spilar á sítar og hefur það gaman þó það sé bláfátækt. Hálf undarlegt eitthvað, úlfaldar á Íslandi. Það væri nú kúl. Myndi setja soldið fútt í landslagið heima.

Í gær var svo Surrey County Show í parkinum hér rétt fyrir ofan. Svona sveitasýning. Við Binni vorum búin að vera í göngutúr og tímdum ekki að borga okkur inn en náðum að smygla okkur inn síðasta hálftímann. Þar var búið að vera mikið stuð, allskyns óargadýr beljandi og hrynjandi, skosk naut, albínóanaut, asnar og risahænur. Míní tívolí og svo allskyns lókal varningur til sölu, t.d. príma nautakjöt og Parmesan ostur frá Surrey (?) Úr því við vorum svona seint á ferð náði ég bara að kaupa eina basilikum plöntu í garðinn. En góð kaup það.

Í gærkvöld horfði ég svo á Big Brother. Einkar skemmtilegur þáttur núna því þeim hefur tekist að blanda saman eins undarlegum persónuleikum og hægt er: homma, bæjara, fertugri grænmetisætu, kynskiptingi, straight listasögunema, gæja sem finnst skemmtilegast að valsa um í g-streng einum fata, stelpu sem langar helst að verða klámstjarna, paranoid Liverpudlian og síðast en ekki síst lesbíu sem skilgreinir sig líka sem ‘political activist’ og neitar að fara eftir reglum stóra bróður - úff þetta verður skrautlegt...og n.b. þið getið ímyndað ykkur hvort ég hafi ekki þurft að útskýra fyrir Goyo um hvað þessi þáttur snerist. Hún varð alveg óð og vildi horfa á þetta 24 hours live (við erum með cable TV sko). Úffa held ég sleppi því.

Svo horfðum við Binni á spúkí þátt með Derren Brown þar sem hann gjörsamlega kaffærði öllum hugmyndum um að miðilsfundir væru ekta. It´s all in the mind...Kúl þáttur, sérstaklega fyrir skeptíker eins og mig. Vonandi verður hann sýndur á Íslandi, því miðilsglaða landi.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?