<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, september 30, 2004

Haustfílingur í Guildford
Hér er greinilega komið haust. Allt orðið pínulítið grárra og blautara á þessari heimsins blautustu eyju. Ekki lengur hægt að sitja útí garði og lesa blöðin með morgunkaffinu. Nú húkir maður bara inni í eldhúsi og sýgur uppí nefið yfir tebollanum. Sem er nú samt bara kósí.

Svona fyrst á haustin fæ ég alltaf einhverja svona ýkt kósí tilfinningu. Hún blandast stundum við smá kvíðatilfinningu, arfleifð frá því þegar maður var að byrja í skólanum aftur - ja, það var nú síðast bara í fyrra en það var svo spennandi! - ég meina frekar grunn/menntaskóla. Búið að leika sér um sumarið og kominn tími á bækur og próf aftur...nú er ég laus við þá tilfinningu en hugsa oft um hana þegar ég sé krakkana í skólabúningunum sínum hanga fyrir utan sjoppurnar og Burger King niðrí bæ. Nei nú er það bara kósí tilfinning. Í búðargluggunum þar sem bara fyrir nokkrum vikum voru hlírabolir og mínípils í ljósum litum eru nú komnar chunky peysur, treflar og kápur í súkkulaðibrúnum lit, ahh kósí....(þangað til eftir 3 mánuði þá er maður orðinn hundleiður á endalausa chunky stöffinu sem lætur mann líta út eins og Michelin Man og maður þráir hlírabolina aftur!)

Það eru fleiri ummerki þess að komið sé haust. Það er meira af fólki -allsstaðar. Það var stórskrýtið að sjá hvernig allt fylltist hreinlega í byrjun september eftir að hafa verið frekar rólegt og tómlegt. Familíurnar komnar úr fríi og nýtt holl af stúdentum komið í háskólann. Afleiðingin er raðir útum allt. Í pósthúsinu, í Boots, í WHSmith...það er eins og bærinn sé að springa! Það er svo mikil velmegun í þessum bæ að það er geðveik eftirspurn eftir öllu og það virðist ekki vera nógu mikið af fólki tilbúið að vinna í þjónustustörfum til að anna henni. Hmm góð hugmynd fyrir hlutastarf kannski, en úff mig hryllir við tilhugsuninni um að þurfa að þjóna öllu þessu fólki sem er orðið ýkt pirrað af að bíða endalaust í röð...svo hef ég bara nóg að gera þessa dagana og lifi bærilega af þessum síðustu skömmtun af námslánum í bili, hehemm.

Við Binni fáum víst ekki miðstöðvarkyndingu í íbúðina í ár og verðum því bara að dúða okkur og vera svo dugleg að kveikja í arninum á kvöldin. Það er nú kósí. Fá sér kakó líka. Lesa bók eða horfa á góðu haustdagskrána í sjónvarpinu. Svo má fara í göngutúra og skoða haustlitina, hér er jú nóg af trjám sem fella falleg lauf. Sveitin er hér rétt við dyrnar, eins gott því við höfum bara lappirnar til að koma okkur áfram. Ég er einmitt búin að fjárfesta í regnjakka svo ég geti farið í nokkrar góðar haustgönguferðir með Binna. Löngu kominn tími á þau kaup. Er eiginlega búin að taka ástfóstri við þennan jakka og fer í honum útum allt því eins og á Íslandi veit maður aldrei hvenær veðrið getur breyst...og hér pempíast ég mun minna en á Íslandi...

Kósí kósí...það er samt ekki laust við að smá kvíðatilfinning sé komin aftur, ég var nefnilega að fá að vita að mér er boðið í viðtal í næstu viku hjá DRAUMAvinnuveitanda mínum, VisitBritain (Ferðamálaráð Bretlands hvorki meira né minna). Ég sendi umsókn svona meira í djóki eiginlega því þetta er svolítið sérhæfð staða, en viti menn þeir vilja tala við mig! (maður er jú orðinn hálfgerður sérfræðingur líka er það ekki? ég hljómaði amk. þannig í þessari moggagrein..erhemm!). Nú er bara að massa samkeppnina urrrr.....

|

þriðjudagur, september 28, 2004

Page 8 girl
Maður er bara alltaf í blöðunum. Fyrst var það Now magazine og svo núna Mogginn. Reyndar ekkert Beckham bull þar. Nei, þar er hvorki meira né minna en Mastersritgerðin mín í aðalhlutverki. Orðin fræg. Kíkið á síðu 8 í Mogganum, ætti að vera þar (ég sé auðvitað ekki Moggann, búhú!), á líka að koma á mbl.is.

Kann ég Rúnari Pálmasyni og kollegum bestu þakkir fyrir að koma þessu í fréttirnar og svona vel til skila. I’m enjoying my 15 minutes of fame....hehe

Vel á minnst, ef það skyldi spinnast út frá þessu einhver umræða (t.d. innsendar greinar), gæti einhver heima fylgst með fyrir mig og látið mig vita? Venjulega gerir mútta það en þau verða í útlöndum næstu vikur (m.a. í heimsókn hér). Einhver sem les Moggann á hverjum morgni og fylgist sæmilega með fréttum...(Rúnar kannski bara?)

|

fimmtudagur, september 23, 2004

Mæja mælir með...
LUSH snyrtivörum. Var bara að uppgötva þær fyrir alvöru. Hélt einhvernveginn að þetta væri meira bara búð til að skoða og kannski svona gjafavörubúð, og um daginn ákvað ég einmitt að kíkja til að finna afmælisgjöf handa Goyo vinkonu, en hún er nú svo mikið “náttúrubarn”. Mongolian nomad girl í botn (ok kannski ekki alveg flökku-hirðingi en ég sé hana alveg fyrir mér þannig samt!). Allavegana, ég varð bara ástfangin af pleisinu. Lyktin og gúmmelaðisvörurnar þarna inni! Keypti súkkulaðismaska, ávaxtasápu, mega-hárnæringu og hjartalaga baðkúlu handa henni.

Á mánudaginn var svo haldið smá afmælispartí fyrir hana. Þegar við gáfum henni þessa litlu gjöf varð hún alveg hlessa. Sagðist aldrei hafa fengið afmælisgjöf spes valda fyrir sig áður. Í Mongólíu er víst engin hefð fyrir spes afmælisgjöfum, bara farið úr að drekka/borða skildist mér. Æ krúttið hún var svo ánægð. Bæði hún og Alex gistu og næsta morgun heyrði ég bara “splash splúss splass” inni á baðherbergi í svona hálftíma...Svo fann ég ýkt góða lykt sníkja sér inní svefnherbergið. Var þá ekki Goyo búin að fara í bað og prófa allar vörurnar! Hún var ýkt ánægð og ég sver það ég hef sjaldan séð jafn glansandi hár (næringin heitir American Cream, fyrir áhugasama). Enda næst þegar ég fór niðrí bæ keypti ég handa sjálfri mér ávaxtasápu og andlits-skrúbbkrem. Hefur vantað almennilegt skrúbbkrem lengi -sem tekur á, og þetta (Ocean Salt) sveik sko ekki, húðin á mér varð hreinlega eins og barnsrass eftir þetta, wow!

Já ég verð að segja ég bjóst einhverveginn ekki við að þessar vörur myndu virka svona vel, hélt að svona “náttúrulegt” stöff myndi virka ekkert betur en bara að smyrja banana framan í sig...enda hefur mér oft fundist Body Shop vörurnar ekki virka neitt sérstaklega vel. En þetta er málið fyrir mig núna, ferskt handgert stöff á feisið. Umhverfisvænt og feel-good líka. Ég er hvort eð er með ofnæmi fyrir flestum frönskum fíneríismerkjum...alveg málið, namm hlakka til að fara í þessa lush (= safamiklu, blómlegu, gróskumiklu, þriflegu -góð lýsing í orðabókinni!) búð aftur.

|

mánudagur, september 20, 2004

Gourmet Britain
Svo ég haldi nú áfram á “gourmet” nótunum, þá sá ég grein fyrir nokkru um það að Bretland sé að komast mjög í tísku fyrir matargerð. Já, þið heyrðuð rétt -gourmet Britain er víst málið. Bretar eru eins og flestir vita ekki þekktastir fyrir matargerð sína, það hefur oftar en ekki verið hlegið að henni (einkum hinum megin við Ermasundið) og flestum dettur í hug greasy fish & chips þegar bresk matargerð er nefnd (ég hef ekki ennþá lagt í að smakka það síðan ég flutti hingað - amk. ekki í svona ekta fish & chips búllu þó ein slík sé hérna rétt hjá -geymi það fyrir kitschy ferð til strandarbæjarins Brighton -vill einhver með? Binni er tregur...).

Semsagt, believe it or not, þá eru Frakkar og Ítalir nú farnir að flykkjast hingað til að gúffa í sig hinu ýmsasta delicatessen á la UK dóti (sjá link til vinstri). Og Englendingar eru orðnir leiðir á (og jafnvel hræddir við -ekki skrýtið þegar hræðsluáróðurinn er orðinn svona mikill) fjöldaframleiddu ruslfæði og vilja í auknum mæli ‘organic’ allt. Þeir þurfa nú ekki lengur að dröslast yfir Ermasundið í leit að gourmet stöffi, þeir fá það bara á næsta bæjarmarkaði, eins og þeim sem er hér í Guildford endrum og eins; bændur koma úr nágrenninu og eru með hina girnilegustu bása með kryddum, ostum (m.a.s. hef ég séð breskan parmesan ost sem leit mjög sannfærandi út), pylsur og brauðmeti.

Já ég segi fyrir mig, þó breskur matur sé stundum heldur brúnn og gulur á lit, þá gemmér Shepherd’s pie, sausage roll, English Breakfast, strawberry tart eða salt & vinegar crisps anytime og ég er meira en sátt. Ég er þó eflaust svona mikill aðdáandi því ég tengi margt af þessum mat við glaðlega æsku mína hér í UK. Úff ég man nú eftir tilraunum í gamla daga með að fá íslenskar vinkonur mínar til að smakka snakk með edikk bragði, það fór ekki vel ofan í greyin! Skildi ekkert í því. En Binni er bara líka að fíla þetta alltsaman. Enda er þetta enginn pempíu-matur svosem. Meiri svona töffara matur, t.d. voru Cornish pasties (lítil hálfmánapæ) hönnuð með það í huga að námuverkamenn gætu haldið í skorpuna með skítugu höndum sínum á meðan þeir borðuðu sjálft pæið og hentu svo skorpunni á eftir. Algjör snilld, ennþá í dag. Við Binni erum sannfærð um að þetta gæti slegið í gegn á köldum vetrardögum á Íslandi. Hver veit nema við opnum bara Cornish Pasty sjoppu uppí Smáralind (það er víst enginn á Lækjartorgi lengur sem gæti skapað sölu, nema kannski breskir túristar) þegar við flytjum heim.

“Gastro-tourism” er semsagt meðal þess sem Bretar sjá fram á að blási auknu lífi í efnahaginn á næstu árum.

Það er ýmislegt meðal þess sem á að laða nautnaseggi að: Hið hlýja veðurfar undanfarin ár er t.d. búið að skapa kjöraðstæður fyrir vínframleiðslu (hér í Surrey, já við Binni búum í Nouveau Bordeaux). Bretar búa líka til fleiri osttegundir en Frakkar núna, heilar 400 tegundir. Aðrar vörur eru t.d. West Country cheddar og Somerset cider (við fórum einmitt til bæjarins Cheddar í fyrra og smökkuðum bæði), skoskur lax, shortbread (mig minnir að það hafi gengið öllu betur ofan í íslensku vinkonurnar), stilton, velskt lamb, sinnep, og viskí.

Þetta er að verða stærri og stærri business -hver veit kannski gæti bara Ísland orðið næsta heitasta gourmet landið ef rétt er að farið? Skoskur lax og velskt lamb -við getum nú pottþétt toppað það er það ekki? Jafnvel að bragðmiklu íslensku tómatarnir gætu orðið útflutningsvara, ef maður skyldi trúa lofgjörð Guðna Ágústs.

Svo er víst líka að verða til annað trend í matartískunni...en það er matur frá Austur-Evrópu. Með stækkun ESB er það bara tímaspursmál hvenær við förum að gúffa í okkur borscht, baclavas, súrkál og gúllassúpu í tonnatali með góðri lyst. Það verður gaman. Er þetta endalausa pestó/basilikum/parmesan æði ekki að verða dáldið þreytt hvort eð er? Austur-Evrópskur matur verður samt challenge fyrir mig býst ég við, kannski e-ð álíka og fyrir grey vinkonur mínar að kafna næstum á edikk-snakks tilraunum mínum. Ég man nú bara eftir volga berjasýrópinu (sem átti að kallast svalandi djús) og gráu kálkássunum sem við Embla fengum í Póllandi um árið - það gæti enginn lifandi maður selt mér það í dag! En sjáum til. Ég held að A-Evrópa verði big hit, sjáiði bara - Króatía farin að ógna Íslandi sem aðal tísku-ferðamannalandið í dag, EasyJet byrjaðir með ferðir til Ljubljana (ha, hvert?) og eitt vinsælasta lagið í sumar var eitthvað súper takkí lag með 3 bretjnjetískum strákum sem sungu “bresna bresna númma númma jei....Mæja hí, Mæja ha, Mæja hí, Mæja haha” , þetta er mér að skapi!

Bon appetit.

|

fimmtudagur, september 16, 2004

Guapa Sevilla
Við Binni erum nýkomin úr góðu fríi til Sevilla í Andalúsíu. Vorum þar í steikjandi hita -höfðum veðjað á að hitinn hefði eitthvað aðeins lækkað síðan í júlí/ágúst en svo var greinilega ekki, Afríkuvindarnir í hörkustuði þarna ennþá. Pffúffhaa. Næstum óbærilegt en við létum það ekki á okkur fá.

Fyrst var að venja sig á spænska ritmann, þ.e. nýta tímann um morguninn þegar ekki er of heitt, og að kvöldmatur er ekki borðaður fyrr en í fyrsta lagi kl. 8. Eins og sönnum túristum sæmir þá tókst þetta ekki alveg, t.d. vorum við eiginlega aldrei komin út fyrr en á heitasta tímanum um hádegi og biðum svo óþreyjufull eftir að klukkan yrði 8 til að geta gúffað í okkur einhverju gúmmelaði. En við leystum það oftast með því að fá okkur allmarga bjóra á meðan við biðum -allmarga segi ég- því þeir voru svo pínulitlir! Binni kláraði einn bjór í nánast einum sopa og við pöntuðum nýja bjóra á svona 10 mínútna fresti. Maður er orðinn svo vanur pæntu-kúltúrnum hér í UK...

Við skoðuðum það helsta sem Sevilla hefur uppá að bjóða t.d. dómkirkjuna sem er ein stærsta sinnar tegundar (af hverju finnst mér það alltaf vera sagt hvar sem ég er? ef það er ekki stærsta þá er það hæsta eða mest skreytta eða stærsta í þessum stíl...). Þar eru leifar Kólumbusar geymdar (ekki alveg víst hvort það séu í rauninni leifarnar hans - DNA rannsókn í gangi), en Kólumbus kom til Sevilla til að heilsa uppá konungshjónin áður en hann sigldi til Ameríku. Fá leyfi og smá pening og annað nauðsynlegt stöff. Mikið af Suður-Ameríska gullinu sem hann rændi rataði líka aftur hingað og það er væntanlega ein ástæða þess að íbúar Sevilla og víðar gátu byggt fallegar hallir og svona. Við skoðuðum líka slatta af öðrum byggingum í mudejar stíl (islam breytt í kristið/kaþólskt svo út kemur blanda) t.d. Real Alcázar höllina sem var algjört æði, sérstaklega paradísargarðurinn þar á bakvið. Í Sevilla er mikið um mjög fallega lystigarða - pálmatré skýla bekkjum sem eru búnir til úr marglitum flísum og gosbrunnar útum allt (arfleifð frá márískum tímum) -og við nutum þeirra óspart í hitanum. Ófaár vatnsflöskur tæmdust og ófáir frostpinnar fengu að rata ofan í maga okkar þar. Við skoðuðum líka gömlu tóbaksverksmiðjuna, verksmiðjuna þar sem óperu-sögupersónan Carmen átti að hafa unnið, rúllandi upp vindla á lærum sér.

Svo var bara gaman að rölta um hverfin þarna og láta sig týnast í litlu þröngu götunum; gamla gyðingahverfið Santa Cruz, sígaunahverfið Triana - fæðingarstaður flamencosins, svæðið þar sem Ameríkusýningin 1939 var haldin og sigla a Guadalquivir ánni. Það var líka gaman að geta spreytt sig á spænskunni. Gat bjargað mér bara bærilega.

Við borðuðum tapas á hverju einasta kvöldi, þrælgott alltsaman og hræódýrt, þetta er bara málið, ekkert að vera að flækjast á veitingastöðum. Það úir og grúir af tapasbörum þarna - tapas á víst uppruna sinn á þessu svæði - og ýmislegt var smakkað t.d. tortilla, gazpacho súpa, döðlur í beikoni, litlar chorizo samlokur, kartöflusalat, ólífur, manchego ostur, paella og ég veit ekki hvað. Hvert öðru betra. Slurpislurp. Svo var vín hússins það besta vín hússins sem ég hef smakkað nokkursstaðar, nánast undantekningalaust gott rioja vín. Ég tala ekki um um þegar maður tímdi að splæsa í aðeins dýrara Rioja, sötrisötr (ófrísku vinkonur, hættið að slefa, hihi ;)).
Kvöldin voru alveg málið þarna. Þá lifnar allt við. Loftið svalara og geggjað götulíf.

Svo leigðum við bíl í einn dag. Binna var búið að hlakka mikið til að endurtaka “tölvuleikjafílinginn” frá því á Sikiley í apríl, en svo óheppilega vildi til að hann týndi veskinu sínu (eða því var stolið) sem innihélt m.a. ökuskírteinið hans. Svo heppilega vildi þá til að ég hafði stungið ökuskírteininu mínu í veskið mitt á síðustu stundu áður en við fórum, svo ég varð bílstjóri ferðarinnar. Hafði ekki alveg undirbúið mig sálrænt undir það en lét vaða og aksturinn gekk bara stórvel. Við keyrðum niður á strönd, Costa de la Luz, sem er öllu fámennari og hreinni strandlengja en nágranninn Costa del Sol enda kaldari Atlantshafssjór -sem kom sér mjög vel í hitanum. Úff hvað það var gott að kæla sig í honum! Við löbbuðum svo aðeins um í hluta Donana þjóðgarðarins og göngutúrinn endaði í svakalega fallegum hluta strandarinnar með klettum -ja- og berum Spánverjum inn á milli. Við busluðum aðeins þar ( í fötum) og héldum svo áfram ferðinni og brunuðum uppí fjöllin. Aldeilis breytt landslag þar, og ennþá heitara! Stoppuðum í fjallabænum Aracena sem var með sæta litla mudejar kirkju þaðan sem var gott útsýni í sólsetrinu, og svona 200 brjálaða unglingsgaura á vespum, mótorhjólum og fjórhjólum rúntandi um litla miðbæinn -greinilega aðal bæjarsportið. Brunuðum svo aftur til Sevilla þar sem ég lenti í smá stressi í myrkinu að reyna að rata inní borgina aftur og um hana, smá tölvuleikjafílingur sem ég hafði ekki mjög gaman að - dísus ég held að Spánverjar skilji ekki til hvers akreinar eru- en það tókst að lokum.

Við enduðum svo síðasta kvöldið í góðri stemmningu á flamenco-bar. Ay ay ay...suðrænt og seiðandi í lagi.

Það var smá sjokk að koma aftur til Bretlands í öllu svalara og blautara loftslag. Það er greinilega farið að hausta aðeins hér. Brrr...íbúðin er að verða kaldari (væntanlegir gestir - verið viðbúin því og takið með ykkur flíspeysur!) og ég finn fyrsta kvefið vera að koma aftan að mér. Það eykur á hauststemninguna að uppí skóla er allt að fyllast af nýjum nemendum, ný ung andlit útum allt. Dáldið skrýtið að vera að flækjast þarna og eiga í raun ekki heima þar lengur...oh nú sakna ég þess pínu að vera ekki bara að fara að hitta alla vinina aftur og spenninginn að byrja í tímum aftur.

Nei mín bíður auðvitað nýtt verkefni -að finna vinnu. Ég fór í viðtal í gær og var boðin sú vinna í morgun en ég afþakkaði boðið. Gúlp. Ætli ég eigi eftir að sjá eftir því þegar ég er kominn á 4. atvinnuleysismánuðinn? Nei, þessi vinna var ekki nógu spennandi fyrir lágu launin og að þurfa að kaupa bíl. Tek því bara sem hvatningu að hafa samt verið boðið djobbið, og tek sénsinn á því að meira spennandi vinna bjóðist á næstu mánuðum.

Svo er ansi skemmtilegt að Alex, gríski vinur minn úr skólanum, er kominn aftur til Guildford til að klára ritgerðina sína. Við hittum hann í kvöld og höldum uppá afmælið hans. Hann fékk að nota íbúðina okkar meðan við vorum í burtu og þegar við komum heim biðu okkar ýmsar grískar kræsingar: fetaostur, handtínd krydd frá mömmu hans (hef aldrei smakkað jafn sterkt og bragðmikið oreganó, vá) og heimalagaður krisuberjalíkjör frá pabba hans. Við smökkum þetta eflaust á meðan hann er hér og höfum með spænsku ólífurnar, chorizo pylsuna og Rioja vínið sem við keyptum á leiðinni heim. Gourmet hátíð í lagi!

|

þriðjudagur, september 07, 2004

Frat og chill
Helgin var ágæt. Reyndar var laugardagurinn frekar furðulegur. Á föstudeginum sá ég auglýsingu fyrir public sector job fair sem átti að vera á laugardeginum í London. Dreif mig því út í búð og fjárfesti í 1 stk. drakt. Dröslaðist svo í henni ásamt Binna til London snemma laugardagsmorgunn. Þegar ég kom á staðinn var undarlega hljótt. Jú, það voru örfáir básar, en engir básar frá þeim sem ég ætlaði að kynna mig svo rækilega fyrir! Þarna áttu að vera öll sveitarfélögin í Surrey (sem eru oft með tourism/leisure deildir), m.a.s. Guildford Borough Council en þau höfðu þá bara ákveðið að nenna ekki að koma á þessum ótrúlega góða 28 stiga hita molludegi....(hásumar er loksins komið hingað aftur eftir heldur votan ágústmánuð).
Algjört frat.
Public sector, hmmm....

Jæja, en þetta átti nú aldeilis ekki að eyðileggja daginn. Ég hitti Binna í Covent Garden og við chilluðum bara þar í kring, fengum okkur picnic í garði og ákváðum svo að sleppa ekki alveg túristapakkanum og skella okkur í siglingu um Thames. Ekkert að því að sigla ljúflega og horfa á allar furðulegu byggingarnar frá þessu óvenjulega sjónarhorni með kaldan bjór í hendi....Við spottuðum m.a.s. gamla fiskimarkaðinn sem Michael Caine vann á þegar hann var lítill strákur með sterkan suður-lundúnískan hreim. Eftir siglinguna röltum við um West End, fórum á nokkra pöbba og virtum bara fyrir okkur mannlífið. London er mjög stolt af sínu “cultural diversity” og það má með sanni segja að þetta sé fjölbreytt borg hvað mannlíf snertir. Maður tekur sérstaklega vel eftir því á svona frábærum sólardegi. Allskonar fólk allavegana á litinn og ungir sem gamlir á sömu pöbbunum. Alveg mögnuð stemmning.
(p.s. ef einhver er að velta fyrir sér hvort við Binni séum ekki komin með bjórvambir eftir allt þetta þamb þá er svarið já! :-O)

Svo snerist gæfan við aftur. Við Binni vorum búin að ákveða að hitta Íslendinga seinnipart dags. Þeir misstu því miður af þessari frábæru pöbbastemmningu en þeir sögðu okkur að hitta sig á veitingastað seinna rétt hjá túristabælinu Piccadilly. Við Binni fengum sjokk þegar við komum inná staðinn og sáum matseðilinn. Jikes, allt svona 3svar sinnum dýrara en það sem við erum vön að borga þegar við förum út og trítum okkur. Ég segi það ekki, hörpudisksbitarnir þrír sem ég fékk voru bragðgóðir, en dísus 30 pund (ca. 3.800 kall) á mann var bara rippoff! Auk þess sem þjónninn skammaði mig fyrir vínvalið, annar þjónn braut disk og enn annar rann í jukkinu af diskinum beint á rassinn -ýkt áberandi því þetta var svona ókósí og ópersónulegur mínímalístískur staður með 5 metra til lofts - og svo (fake) fínt alltsaman að maður þorði varla að flissa í hljóði. Ofan á alltsaman átti maður að tipsa á klósettinu og svo var “optional” 12% þjónustugjaldi bætt ofan á reikninginn. Við Binni vorum ákveðin í að borga það ekki, bentum þjóninum kurteisislega á að það stæði “optional” og hann fór í fússi og við drifum okkur út. Ég hef aldrei vitað annað eins.
Íslendingarnir sáu samt bara ekkert að þessu. 3.800 kall á mann bara ágætlega sloppið heima náttúrulega. Svona breytist mat manns þegar maður býr í útlöndum!

Nei þá bið ég frekar um gæða indverskan (það sem maður Á að fá sér í UK -lærði það strax 3 ára þrátt fyrir að hafa næstum kafnað á sakleysilega útlítandi vindaloo kjötbollu á einum slíkum skv. frásögn mömmu). Slíkir staðir eru alltaf kósí með góða þjónustu og bara max. 15 pund á mann með víni ef maður fer t.d. á Brick Lane. Og bara miklu óformlegra og meira fun. Ahhh þannig vil ég hafa það. Mér finnst líka bara skemmtilegra að styrkja sætu indverjana heldur en að láta eitthvað þykjustusnobbað lið á Piccadilly “ræna” mig.

Binni var sérstaklega svekktur þetta kvöld greyið því hann sá jafnvirði 5 diska Megadeath safns fljúga út um gluggann þegar hann borgaði fyrir okkur. Jafnvel að maður hefði getað splæst í blæju-bílaleigubíl fyrir þetta á Spáni. Jæja, blæjan fær bara að bíða betri tíma.

Nóg um það. Indæla veðrið heldur áfram. Massa chill úti í garði í gær (sunnudag). Stúss í dag og á morgun og svo erum við farin í frí. 36 stiga hiti í Sevilla þessa dagana púffa húffa hva...er ekki kominn september, hvað er í gangi?

Hasta luego amigos.

|

fimmtudagur, september 02, 2004

Suðrænt og seiðandi
Þeir sem þekkja mig rétt vita að ég er mikill aðdáandi alls sem er suðrænt og seiðandi. Ég hugsa að það hafi kannski komið sem sálrænt viðbragð við “stífa og kalda” íslenska uppruna mínum og hálfgerðu óverdósi á heimsóknum í germanskar fornbyggingar þegar ég var krakki. Amk. tel ég mig nú vera með helstu passívu sérfræðingum í kastala- og kirkju fræðum Þýskalands og fleiri Mið-Evrópskra landa þó víða væri leitað. Það var nú langoftast gaman að flækjast með mömmu og pabba í bíl og tjaldi um Evrópu, þó maður hefði stundum verið orðinn óþolinmóður að bíða í það sem virtist heila eilífð eftir að pabbi myndi klára að skoða kirkju X/kastala X/eða höll X í FurstchenskrafenXburg. Maður lét sig oft dreyma um spænskar strendur og pálmatré í staðinn við undirleik “La isla bonita” með Madonnu í huganum. Þetta voru svo margar byggingar að í minningunni eru þær orðnar ein stór grá og brún óskýr klessa. Það þýðir lítið fyrir foreldra mína í dag að segja “já, þú varst nú þar þegar þú varst 5 ára!” þegar ég segi þeim stolt að ég hafi náð að kíkja á einstaka höll eða kastala hér í Bretlandi (gerist skuggalega oft). No chance að ég muni.

En þegar ég var 18 ára var komið nóg - ég varð að fá að sjá og upplifa þetta suðræna og seiðandi stöff sem er víst bara nokkur hundruð kílómetrum fyrir sunnan hið síður eksótískara Suður-Þýskaland. Ég skráði mig sem AuPair hjá fjölskyldu nálægt Madrid í fyrirheitna landinu Spáni. Sú dvöl reyndist nú ekki jafn suðræn og seiðandi og ég hafði kannski í huga, en eitt mjög mikilvægt kom útúr henni: ég náði að læra að habla bara bærilega þetta suðræna og seiðandi tungumál inná milli þess að reyna að þvinga mat niður í tregan 3 ára krakka og láta mér leiðast í pínulitlum bæ þar sem var enginn á mínum aldri, hvað þá pálmatré eða strönd. Þetta kom sér einkar vel í spænskutímum Sigga Hjartar í MH árin á eftir.

Ástæðan fyrir því að ég er að rifja þetta upp er sú að ég er búin að plata Binna að skreppa með mér til fyrirheitna landsins aftur, nánar tiltekið til Sevilla, í næstu viku. Nú er kominn tími, eftir heil 10 ár, til að Maria Gonzales fái að prufa að habla aftur en án 3 ára krakkans og í miklu flottari borg, og njóta seiðandi spænskrar stemmningar með su amor. Sí...

Ég er orðin mjög spennt og er byrjuð að æfa mig í spænskunni fyrir ferðina. Les spænsku barnabækurnar mínar og spænska Séð og Heyrt svo ég veit allt um fræga fólkið þar í landi og m.a.s. hvernig það lítur út hálfnakið. Ég horfi líka á Almodovar myndirnar mínar, en Almodovar er líka einn uppáhalds kvikmyndaleikstjórinn minn. Myndirnar hans eru svo yndislega 100% spænskar og hann sýnir svo frábærlega þennan spænska trega og heitu tilfinningar - og svo eru myndirnar hans svo litríkar og fyndnar líka. Mæli með öllum sem ég hef séð, sérstaklega þeim gömlu sem eru margar ansi kreisí. Es maravilloso, mujer!

Svo fórum við Binni á myndina Motorcycle Diaries um daginn -sem er á spænsku- mæli alveg með henni, fyndin og sæt ferðasaga Che Guevara og félaga hans. Ég er þó ekki beint aðdáandi þess fyrrnefnda - ólíkt ófaúm öðrum stúdentum sem hafa skartað frægu rauðu stuttermabolunum í massavís í gegnum tíðina án þess endilega að vita neitt um hann eða hvað hann gerði sjálfur margt ljótt og heimskt. Eins og einhver sagði um daginn, örugglega ein mest over-rate-aða “hetjan” ever. Jæja hvað um það. Amk. styrkti þessi mynd þann draum minn (ef mér tekst einhverntímann að skrapa saman nógu mörgum aurum og mínútum) að ferðast um alla S-Ameríku og fá massa suðræna og seiðandi stemmningu beint í æð. Olé.

Til að bæta ofan á suðrænu og seiðandi stemmninguna þessa dagana keypti ég mér svo líka brasilískan disk um daginn (eitt af “verðlaununum” mínum), Nu Brazil, sem er bara ansi góður. Ég er nefnilega mikill aðdáandi suðrænnar og seiðandi tónlistar og dans eins og einhverjir vita. Þegar ég spila þennan disk sé ég bara fyrir mér stráka að spila fótbolta og stelpur að sötra caiperinas á strönd í sólinni ...Smjatta stelpur hvað með Ríó fyrir 30 afmælisferðina okkar? Mér finnst það alveg hugmynd! Eru ekki allar duglegar að safna? : )

Svo nú er ég til í slaginn. Espanol, flamenco, tapas og rauðvín (æ er ekki að meika þetta sérrídæmi þarna niðurfrá) here I come - æ og máríski arkitektúrinn líka sem er svo flottur...sko, eitthvað virðast allir þessir kastalar og hallir í gamla daga haft áhrif á mann eftir alltsaman!

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?