<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, júlí 30, 2004

Full speed ahead
Það er ekki það skemmtilegasta að vera að skrifa ritgerð svona þegar flestir eru í sumarfríi. Og svona ferlega gott veður. Alltof freistandi að bara chilla í sólbaði úti garði eða fara út og fá sér ís.  En nú er bara mánuður til stefnu hjá mér með ritgerðina og það dugar ekkert hálfkák.

Enda er ég búin að vera meira eða minna í fríi allan júlí finnst mér, og meirihluta júní þegar ég var á Íslandi. Nú erum við Binni orðin ein í koti aftur eftir heimsókn foreldra hans Jóns og Siggu, systur hans Melkorku og dóttur hennar Elísu. Þá verður maður víst að fara að sparka í rassinn á sér.

Síðasta vika með fjölskyldu Binna var afar skemmtileg. Hittumst öll á föstudeginum í London í blíðskaparveðri og fengum okkur picnic í Hyde Park. Áður hafði menningarlega Mæjan náð að fara í ágæta alþjóðlega bókabúð, Grant & Cutler, og náð sér í nokkrar spænskar barnabækur til að æfa sig - við Binni erum líka að spá í að skella okkur til Spánar þegar ritgerðaruglinu er lokið. Þá er gaman að geta slegið um sig með einhverju aðeins flóknara en “dos cervezas por favor”. Þó þessar barnabækur séu kannski ekki mjög flóknar en þær innihalda þó e-ð annað en umræður um hversu mikið áfengi maður vill, og það getur komið sér ágætlega svona stundum.

Laugardagurinn var Guildford dagur og farið í góðan göngutúr a la Binni. Fann útúr því að ég er ekki sú eina sem kvartar yfir lengdinni og hraðanum á þeim göngutúrum...ha! Ýmislegt annað var svo gert eins og klassískt grill a la Stocton Road og farið út að borða á Thai Terrace, modern-tælenskan stað hérna sem er með frábært útsýni yfir Guildford. Svo fóru nokkrir dagar í London hjá stelpunum, þær voru as-skoti duglegar og fóru 3 daga í röð og tóku svona það helsta. Svo var auðvitað farið í Disney búð og keyptur risa mikka mús bangsi fyrir Elísu (sem var bara svakalega flottur, ég þarf að tékka á þessari búð!). Á meðan fóru Jón og Sigga til Oxford og fetuðu í fótspor menntamanna og Lísu í Undralandi.

Nú er smá bið í næsta gest, sem er Ólöf vinkona en hún ætlar að koma við hér i lok ágúst á leið sinni frá Ítalíu. Bella Italia. Er einmitt að lesa bók um þann skondna kúltúr sem ríkir þar. Family politics og double morals og allt það. Brilljant.

Svo getur verið að við skreppum í heimsókn til Rhi í risa-húsið í Hampshire aftur, um Þar næstu helgi. Það er kannski búið að fylla sundlaugina núna, jei! Og svo er grillveisla hjá Arkenford, vinnunni hans Binna í kvöld. Félagslíf okkar Binna hér úti hefur bara aldrei verið meira bissí! Já, en bíddu nú við...byrjaði ég ekki þetta blogg á því að segja að nú væri bara massa lærdómur framundan? Ehemm, jæja, góða verslunarmannahelgi -hjá mér lærdómshelgi pööhhhhh.



|

þriðjudagur, júlí 27, 2004

Til hamingju Erla og Viggi
Erla vinkona og Viggi eignuðust dóttur aðfaranótt sunnudags.  Ég óska þeim innilega til hamingju! Erla er fyrsta vinkonan í hópnum til að eignast barn, þó Embla fylgi fast á hæla hennar. Gaman að því. Það er annars ótrúlegt hvað það eru miklar breytingar oft í vinkvennahópnum mínum úr MH: flytja til og frá landa, mennta sig, og nú eignast börn (engin þó gift ennþá). Ég er ein af þeim sem get ekki haldið mig frá útlandinu og einhverjum stuffy menntastofnunum. Já þetta er greinilega spennandi aldur sem við erum á. Allt að gerast, engin ládeyða. En það besta er að þó að það séu allskonar breytingar í gangi í hópnum þá höldum við alltaf góðu sambandi. Það er alveg ómetanlegt, því það getur annars verið svo hættulega auðvelt að missa samband. Ég reyni að gera mitt til dæmis með þessu bloggi!

Nú er ég bara óþolinmóð að sjá myndir af litlu prinsessunni þeirra Erlu og Vigga! Efast ekki um að sú litla verði jafn gullfalleg og gáfuð og foreldrar hennar. Spái því jafnvel að hún verði rauðhærð, hress og ákveðin, hehe. Já nú fylgist ég sko náið með Erlu-bloggi á næstunni...

|

miðvikudagur, júlí 21, 2004

Mæja sjálfboðaliði
Fröken Fix er orðinn sjálfboðaliði. Já, tími til kominn að gefa eitthvað tilbaka til samfélagsins. Ríka stúdenta vantar hvort eð er alls engan aukapening í gegnum borgaða vinnu.
 
Nei það sem ég er að gera er að hjálpa til á stað hérna rétt hjá sem heitir Dapdune Wharf.  Þessi staður er í eigu The National Trust, samtök sem eiga og reka yfir 300 sögufræga staði og náttúruperlur í Bretlandi en byggja á frjálsum framlögum og sjálfboðavinnu eingöngu til að viðhalda þessum stöðum og veita fólki aðgang og fræðslu um þá.
 
Dapdune Wharf var miðstöð kanal-báta flutninga hér á árum áður. Bátar voru byggðir hér og fluttu ýmsan varning um þennan sögufræga kanal sem rennur hér í gegn, The Wey and Godalming Navigations, til og frá London. Þetta er einstök perla í Guildford - sem fáir vita um, hmm þarf að taka til í hendinni í markaðsmálum hér! aldrei að vita nema maður geti fengið að skipta sér af þeim seinna. Lítill staður en mjög skemmtilegur, t.d. er hægt að skoða svona bát, fá sér picnic útí eyju, skoða “interactive” sýningar (brilljant fyrir fólk með krakka) og fara í bátsferð inní Guildford og tilbaka. Ég er að aðstoða í miðasölu og upplýsingum, svona ca. ½ dag á viku. Beiti þar öllu sem ég lærði á City Inn forðum daga í customer service, t.d. horfa í augun á fólki og brosa, eitthvað sem margt af afgreiðslufólki á Íslandi mætti læra (ég var næstum komin með harðsperrur í hnakkann um daginn á Íslandi af að þrýsta hausnum niður og mumla e-ð sem líktist “góðan daginn” við búðarkassann - ósjálfráð viðbrögð við oft einstaklega þurrpumpulegu afgreiðslufólki, það þýddi sko lítið að reyna að vera glaðlegur og brosa þar, svei svei. Jæja, hvað um það).
 
Og af hverju datt mér í hug að gera þetta? Jú, af einskærri góðmennsku. Nei ok, kannski ekki bara henni. Auðvitað er ég bara að hugsa um mitt eigið litla rassgat, haha. Nei, ástæðan er reyndar sú að í fyrsta lagi hef ég mjög mikinn áhuga á því hvað samtökin The National Trust eru að gera. Í öðru lagi hef ég mikinn áhuga á þróun og stjórnun ferðamannastaða, í sambandi við námið. Í þriðja lagi mun þetta líta vel út á CV-inu mínu. Aha!
 
Auk þess er þetta kærkomin breyting frá ritgerðaskrifum -og vinnuleit þegar hún hefst. Svo er hitt starfsfólkið þarna svo ótrúlega næs (lógískt því ef einhver væri óánægður þá myndi hann hætta sem sjálfboðaliði!), og umhverfið líka, að mér finnst þetta bara gaman. Fólk er svo þakklátt fyrir að maður skuli nenna þessu, jú það er ekki frá því að maður fái smá kikk útúr þessu þannig. Ég er tvímælalaust með þeim yngstu þarna, mest lið á eftirlaunum þarna (sum algjör krútt, “would you like a cup of tea, love?”, svoleiðis stemmning), og hafa margir áhuga á manni og hvers vegna maður er að þessu. Gott mál.
 
- Frítt llamadýr með pizzunni -
Þetta eru einhverjir að bjóða uppá hér í Guildford, sá þetta auglýst í Surrey Advertiser. Reiðtúr meðfram ánni Wey á llamadýrum, og endað á pöbb einhversstaðar þar sem framreiddar eru pizzur (vonandi ekki llamapizzur þó). Ég ætti kannski að bjóða mig fram í þetta?



|

sunnudagur, júlí 18, 2004

The tide was high...
Við Binni skelltum okkur á Blondie tónleika á föstudaginn. Frábærir tónleikar! Þeir voru í Stoke Park hér rétt fyrir ofan okkur svo við gátum bara rölt á svæðið. Talsverður fjöldi fólks var búinn að tjalda (útihátíð alla helgina) og við og við fann maður sterka “græna” lykt leggja að nös svo það var greinilegt að fólk var í stuði. Við hittum nokkra af vinnufelögum Binna, hlömmuðum okkur á goðan stað og byrjuðum á “nestinu” okkar (epladjús).
 
Fyrst spiluðu The Damned, víst gömul pönkhljómsveit, kunnuglegt nafn en ekki get ég sagst kannast við tónlistina (eða fíla hana neitt sérstaklega), en jæja þeir voru í fyndnum búningum í það minnsta. Svo komu The Stranglers á svið, en þá kannaðist maður nú við. Ein af þessum hljómsveitum sem maður veit að maður á að vita hver er, en svo man maður ómögulega neitt lag. Svo heyrir maður lögin og segir “ah já einmitt!”. Svo heyrir maður lögin seinna og hugsar “argh hvaða hljómsveit er þetta aftur?”. Kannski er ástæðan fyrir þessum ruglingi mínum sú að mig minnti að þetta væri svona 60’s bítlahljómsveit en svo eru sum lögin þeirra mjög 80’s, undarleg blanda. Meðal laga voru “Golden Brown”, “Always the sun” og “Skin Deep” (better watch out for that haha). Man ekki meira. En það var stemmning. Þeir eru líka frá Guildford svo ég er ekki frá því að það kom uppí manni smá stolt af því að vera Guildford búi, heyr heyr!
 
Eftir nokkra bjóra í viðbót og sloppy burrito var komið að ljóskunni. Hún klikkaði sko ekki. Þrátt fyrir að vera víst orðin 59 ára (hefði aldrei trúað því) var Debbie Harry bara næstum eins og fyrir 30 árum, ljósa hárið enn á sínum stað (þó ræturnar séu eflaust frekar gráar en dökkar núna), í þröngum svörtum buxum, eldrauðum glimmerbol og hvítum jakka. Töffarleg röddin í full swing. Kúlisti í öðru veldi þessi kona. Hún getur örugglega talist mikilvægt feminista-ikon í dag. Og var það eflaust in the seventies líka. Þarna er söngkona sem er ekkert að fara eftir neinum formúlum, engin barbie dúkka sem bara dillar ser í bikiníi heldur bara töffari með töffaratexta og ótrúlega flott í fullum klæðnaði þar sem hún yfirleitt stendur kyrr á sviðinu, í mesta lagi sveiflast rétt til hliðanna. Hún var líka örugglega ein fyrsta konan til að rappa, í uppáhaldslaginu mínu “Rapture” - groovy!
 
Okkur Binna tókst að troða okkur vel framarlega og hoppa með lögum eins og “Heart of Glass” (úú...óó söng allur parkurinn), “The tide is high”, “Call me”, “Maria” (geðveikt ;)) og fleiri góðum slögurum. Svo röltum við ánægð heim, búin með nestið, rétt fyrir miðnætti.

Í gær á leiðinni af pöbbnum heyrðum við svo glymja við úr parkinum “Don’t you...forget about me” sem Simple Minds voru að spila. Það lagði yfir allt hverfið heljarinnar “græn" lykt, sver það hún læddist m.a.s. inn til okkar um stofugluggann! Í kvöld ætlum við að fá okkur göngutúr meðfram parkinum og reyna að ná nokkrum “ókeypis” lögum með UB40. Naughty naughty...



|

miðvikudagur, júlí 14, 2004

Pickles
Surar gurkur eru frabaerar.
Nei thetta er nu grin eg aetla ekki ad fara ad blogga um surar gurkur tho thaer seu agaetar til sins bruks og jafnvel haegt ad blogga um thaer.
Nei eg meina adallega ad thad er e-r pickles med internetid heima svo thad verdur e-d minna bloggad thar til thad kemst i lag...sorry! Nadi samt ad setja inn blogg her f. nedan i dag :)

|
Góðir gestir
eru Vilborg og Rúnar. Skötuhjúin eru hér hjá okkur í Guildford núna, að aðlagast rigningu og kulda áður en þau flytja heim á klakann. Búið að vera einstaklega gaman að hafa þau. Á sunnudaginn var farið í góða sveitagöngu í hæðunum hér í kring, og var þá Anna Helga samferða, fegin að sleppa aðeins úr steinsteypunni í City. Eftir það var haldið heim í klassíska grillveislu ‘a la Stocton Road’ í garðinum. BBQ pinnar og eplakaka sem strákarnir slógu át-met á. Goyo joinaði svo seint um kvöldið og það var setið úti til kl. eitt, í niðamyrkri með kertin logandi og froskinn gólandi (ekkert spúkí sko). Enn einn erfiður morgun hjá Binna í vinnunni daginn eftir en við hin tókum því rólega í miðbæ Guildford. Um kvöldið var svo horft á snilldarmynd þeirra Monty Python manna “The Holy Grail”, viðeigandi eftir lestur Da Vinci Code hehe. Knights who say “ni”, killer rabbit, brave Sir Robin og allir hinir á sínum stað. þessi mynd var víst valin "Britain's favourite film" um daginn og ekki að astæðulausu.

Í gær fór ég svo með V+R til London. Við vorum einstaklega menningarleg og tókum fyrst listapakkann, V+R fóru í ‘gorið’ góða í Saatchi gallery en ég fór í staðinn á Tate Modern og sá yfirlitssýningu Edwards Hopper. Hopper var einn af fremstu málurum Ameríkana á síðustu öld og er frægur fyrir melankólískar myndir sínar af (oft einmana) fólki á diner-um, hótelum og húsum í úthverfum eða eins og stendur í bæklingnum ‘all the sweltering, tawdry life of the American small town, and behind all, the sad desolation of our suburban landscape’. Hjá Hopper verða hversdagslegar sitúasjónir hlaðnar dulúð og spennu. Það finnst mér hrikalega heillandi. Maður fer strax að búa sér til sögu á bakvið málverkin, ‘hmm hvað ætli dapra stúlkan á kaffihúsinu sé að hugsa...henni hefur kannski verið dömpað greyinu...?’ Enda þykja málverk hans oft minna á kvikmyndasenur. Ég er ekki frá því að hann hafi verið heldur þunglyndur kallinn. Enda bjó hann mjög einangraður og frekar úrillur með oft enn úrilli konu sinni (sem heimtaði að hann notaði bara sig sem módel jafnvel þegar hún var orðin fimmtug og Hopper var að mála öllu yngri konu) í lítilli íbúðarkytru í New York. En málaði þessar líka miklu snilldarmyndir að mínu mati.

Eftir djúpa listíhugun hittumst fórum við öll í eðal sightseeing uppí hæstu hæðir í London Eye hjólinu. Mæli absolutt með þessu fyrir þá sem heimsækja borgina, þrátt fyrir klukkutíma bið. Maður sveif þarna yfir Thames og Westminster og gat spottað helstu byggingar og garða, ágætt til að átta sig á lay-outinu á borginni, maður á til að vera með svo brenglaða mynd af borginni eftir að hafa hringsólast í undergroundinu endalaust.

Svo var kominn tími á smá sögustund. Skelltum okkur yfir á Cabinet War Roomssafnið þar sem Churchill og æðstu aðilar bresku ríkisstjórnarinnar unnu og bjuggu neðanjarðar á tímum árásanna á London í seinni heimsstyrjöld. Magnað safn, öllu haldið eins líkt því eins og var, og gínur, hljóðeffektar og allskonar gimmicks gerðu þetta enn raunverulegra svo að jafnvel sögufóbíu-mönnum eins og mér fannst gaman! Maður sá þarna hvar Churchill hafði borðað (uppáhaldsmatur Beef Wellington), sofið (m.a.s. náttfötin voru til sýnis) og tjattað við Bandaríkjaforseta (inní leyniherbergi sem leit út eins og klósett að utan). Hvar fundir voru haldnir og strategían úthugsuð. Mér hefði samt ekki liðið mjög vel þarna niðri held ég. Sérstaklega þegar það fattaðist eftir nokkurn tíma þarna að byrgið væri alls ekkert bombuhelt eftir alltsaman - en þá var reyndar loksins drifið í því að styrkja það, phew!

Gærkvöldið endaði svo á indverskum á Brick Lane eins og svo oft áður og það klikkaði ekki frekar en fyrri daginn. Enda í góðu kompaníi Önnu Helgu og Kára. V+R eru svo að klára Lundúnapakkann í dag og stefna á góða blöndu af framhaldssögustund og verslunarleiðangri. Á meðan er Binni í vinnunni og ég að pikka hér. Reyni kannski að varpa meira ljósi á niðurstöður ritgerðar. Er bara alveg óskaplega löt samt þessa dagana...geisp.

|

miðvikudagur, júlí 07, 2004

Sumarið er tími paddnanna
Í því tilefni ætla ég að gera tilraun til að skrifa hér texta pöddulagsins með Todmobile sálugum, örugglega einn af sýrðustu íslensku textunum sem hafa verið skrifaðir.

Hwe..hermaur!
Ó! risafló..
Dara á á á
Dara ú ú ú
Dara á á á
Og það var kónguló...

Ef menn væru kóngulær eða brjálaðar villiflær (rpt) (hwe!)
Það væri ég
(Risafló)
ég ætla ekki að hugsa um það og hvað þá að horfa á það (rpt)..ekki ég (hermaur)
ó ó verða brjáluð fló ó nei það er kónguló
ó...hún ryðst yfir mig hún ryðst yfir allt...

hryðjuverkagaurnarinir og hermannamaurarnir
leggja allt í rúst
dara á á á
en allt vont í heimi hér ég læt fljóta framhjá mér
náir mér þú
dara ú ú ú
þú bitinn og stunginn ert hvað geturðu að því gert
dara á á á
og það var kónguló...

á á á ái þú meiðir mig
æ æ æ æi þú kremur mig (rpt) kónguló...
ég vil ekki vera með
þú með þitt sýkta geð (rpt)
(hwe!)
ekki ég
(hermaur!)

ó ó það er hermannsmaur
a a það er hryðjugaur
ó...hann ryðst gegnum mig, hann ryðst gegnum allt...

ég skal éta þig
kominn til að melta þig
reyni strax að drepa þig
kem og keyri yfir þig
fræsa vel!
kominn til að éta þig
fræsa vel!
ég er hermaur!

dara ú ú ú dara á á ááááá....
á á á á á á á a a
ertu kónguló? a a
ertu risafló?
dara á á á
en allt vont í heimi hér
ég læt fljóta framhjá mér
vil ekki sjá
dara á á á
þú bitinn og stunginn ert
þú getur ekki að því gert
a á á
og það var kónguló...

- svo kemur fáránlegur kafli, blanda af spænskum gítar og eletrónískum trommuforritunartilraunum Eyþórs og Þorvaldar 1990 újé:
Hwe he! Hwe he! Hwe he! Hermaur He! Hermaur!
Tilbúnir að tilbúnir að melt’ana
ái á ái
tilbúnir að melt’ana
ha!

- hljóð eins og einhver sé að kafna – smekklegt!

Úff manni fer hálfpartinn að klæja við að lesa þenna texta!

Ég keypti Todmobile Best diskinn þegar ég var heima um daginn, mæli með honum þó dýr sé. Ótrúlega margir smellir sem þeir áttu og bara massagóð hljómsveit. Algjör synd að hún skuli hafa hætt (og Eyþór farið að gera misgóða hluti með Móeiði í Bong, muniði eftir því? yikes. Fyrir utan Oz dæmið og allt það...hann hefði átt að halda sig við sellóið og Toddarrann kallinn! Og sleppa klippingunni og jakkafötunum).

Svo tengjast lögunum svo góðar minningar frá skólaböllum á Hótel Íslandi. Þá gargaði maður nú með þessum lögum þó maður fattaði kannski ekki alltaf hvað væri verið að segja (I don’t blame myself, sumt er harla óskiljanlegt núna þegar ég er samt búin að sitja hérna, spila dótið aftur og aftur og greina það! Var svona 10 min. að fatta setninguna “þú með þitt sýkta geð”!).

Blessuð pöddugreyin, betri í lögum en inni í herbergi eða á kryddjurtunum mínum úti í garði, urrrrr!

og það var kónguló...

|

mánudagur, júlí 05, 2004

Til hamingju Grikkir
Þetta var flott hjá Grikkjunum í gær. Ánægð með þetta. Hugsa hlýtt til Alex vinar míns í Thessaloniki sem er eflaust vel þunnur í dag.

Held að ég hafi aldrei áður skemmt mér svona vel yfir fótbolta eins og síðustu vikur! Gaman að því.

|

sunnudagur, júlí 04, 2004

Home sweet home
Það er gott að vera komin heim. Heim í the sweet and simple life hér í UK með Binna mínum.

En verri var ferðin heim. Ég lenti í underground verkfalli og varð að flækjast í “undirheimum” Lundúna í 1 ½ tíma með þunga töskuna, tölvuna mína og kannanirnar góðu, upp og niður endalausar brattar tröppur í ausandi mengun (ábending til London underground: hafa sléttan gangveg við hlið trappanna fyrir það mikla magn af fólki sem er að bögglast með farangur takk fyrir) Aðeins örfáar lestir voru gangandi og kona í appelsínugulu vesti sagði mér að eina leiðin niður á Waterloo frá Liverpool St. væri gegnum Baker St. (þokkalega úr leið). Þegar á Baker St. var komið var allt lokað og ég þurfti vessgú að fara tilbaka og uppúr undergroundinu, labba í gegnum mjög svo dúbíus Euston hverfið kl. 10 að kvöldi áður en ég hætti mér niður í undirheimana aftur. En ég komst að lokum, gjörsamlega búin á því, á Guildford Station þar sem Binni tók á móti mér opnum örmum.

Næsta dag var svo afmælið mitt. 28 ára varð ég þann dag. Ekki bar til mikilla tíðinda á deginum sjálfum, var auðvitað dauðþreytt eftir ævintýri kvöldsins áður. Var bara að taka uppúr töskunum og aðeins að hneyklast á því hvað íbúðin var farin að líkjast skuggalega Sóló 5a (íbúð Binna áður en við fluttum út) - ekkert í ísskápnum, "gleymdist" að þrífa baðkarið, misfallegir skrautmunir komnir uppá vegg...búið að fyrirgefa allt núna enda kannski ekki nákvæmasta og þrifnasta manneskjan hvað varðar heimilisstörf sjálf (hehemm). Svo segi ég það ekki, ýmislegt nýtt og skemmtilegt var komið líka t.d. pílukastspjald í garðinn. Já það er greinilegt að það er aðeins öðruvísi stemmning í húsinu þegar kellingin er ekki heima, hehe!

Þegar Binni var kominn úr vinnunni hófst afmælisgleði mikil. Pakkar og læti. Bjór og tónlist. Meðal góðra gjafa frá honum voru miði á Blondie tónleika 16. júlí hér í parkinum fyrir ofan (fékk líka disk með þeim frá mömmu og pabba til að hita upp) og forláta syngjandi froskur (eða kvakandi? hvað segja froskar eiginlega? ribbidd ribbidd) í garðinn! (best finnast mér samt alltaf sniðugu kortin frá Binna en innihald þeirra fær að sjálfsögðu því miður ekki að rata á þessa síðu). Um kvöldið prufuðum við svo nýjan “wine bar” með snilldargarði og létum ekki nokkur himnatár fæla okkur inn. Fórum svo á tælenskan veitingastað þar sem við fengum dýrindis mat og svo aftur á wine bar...the rest is history. Það var svo gaman þar að Binni var farinn að dansa við gítargutl trúbadorsins og ég var farin að skvetta í mig hot shots í boði nýrra “vina” við barinn - löngu búið að gleyma að vinnudagur væri daginn eftir (en bara hjá Binna að sjálfsögðu)...gleðin hélt áfram hér heima þegar búið var að hringja bjöllunni á vínbarnum, dansað í stofunni o.s.frv., lét mig m.a.s. hafa það að vanga við Tesla rokkballöðu, þvílíkt rómó (!). Þokkalegur hausverkur daginn eftir og greyið Binni þurfti að vinna til kl. 20. Úhúhúff. En vel þess virði!

Mér finnst annars bara stórfínt að vera orðin 28 ára. Skil ekki hvað fólk er stundum að væla að það sé að verða þrítugt og svona. Ég get ekki beðið eftir þrítugsafmælinu mínu (ef það var svona gaman á 28 ára afmælinu hvernig verður 30...hehe). Finnst ég búin að vera heila eilífð “tuttuguogeitthvað”. Kominn tími til að breyta til. Er kannski að vonast eftir því að lífið verði einfaldara eftir þrítugt...en ætli það haldi ekki bara áfram á sömu braut - sem er ekkert svo slæmt heldur.

Já það er ekki búið að gera mikið af viti hér síðan ég kom heim. Eða bara síðan ég kláraði könnunina (2 vikur gúlp). Fannst ég bara búin með verkefnið eftir könnunina! En svo er víst ekki. Er núna að byrja á serious gagnaúrvinnslu. Byrjuð að pína greyið Binna til að útskýra þetta allt fyrir mér. Byrjuðum aðeins í gær og þessi gögn, þó frá litlu úrtaki séu, virðast bara vera ansi góð. Svo nú er það bara vinna vinna í þessari viku og svo koma Vilborg og Rúnar í heimsókn, jei!

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?